Verður íslenska Netflix nóg?

Netflix
Netflix AFP

„Þetta er auðvitað mikið fagnaðarefni. Netflix mun með þessu gjörbylta þessum íslenska streymismarkaði,“ segir Sverrir Björg­vins­son, rit­stjóri tækni­bloggs­ins ein­stein.is í samtali mbl.is en þjónusta efnisveitunnar Netflix opnaði á Íslandi í gær. 

Eins og áður hefur komið fram er töluverður hópur Íslendinga nú þegar með aðgang að Netflix í gegnum krókaleiðir og eru flestir með bandarísku útgáfuna. Sverrir segir að í öðrum löndum sé oft vinsælla að vera með bandaríska Netflix en staðfundna áskrift og skýrist það líklega af því að í bandarísku útgáfunni er mesta úrval efnis.

Úrvalið misjafnt eftir löndum

Úrvalið er háð samningum við rétthafa og bendir Sverrir á að til dæmis muni bandaríska þáttaröðin House of Cards, sem er framleidd af Netflix, ekki vera inn á íslenska Netflix þar sem RÚV er með sýningaréttinn. „Það breytist líklega ekki því að RÚV er að öllum líkindum með sýningaréttinn þar til að serían klárast. Úrvalið er mjög misjafnt eftir löndum, í Bandaríkjunum eru tæplega 6000 titlar á Netflix en 2000 í Svíþjóð. Síðan eru þeir 700 í Portúgal,“ segir Sverrir. 

Hann segir þó að úrvalið sem mun standa áskrifendum að hinu íslenska Netflix til boða eigi eftir að skýrast. „Ég var að skoða íslensku útgáfuna í gær og það virðist vera að þeir leggi mikla áherslu á það efni sem Netflix hefur verið að framleiða sjálfir og er ekki háð samningum við íslenska aðila.“

Nýtt efni kemur inn á Netflix í hverjum mánuði en að sama skapi dettur stöðugt út efni. Sverrir segir það allt háð samningum hverju sinni.

Ekkert mál að flakka á milli landa

Sverrir telur það alveg ljóst að áskrifendum Netflix muni fjölga hér á landi í ljósi nýjustu tíðinda. „En það er bara spurning hvenær. Netflix er greinilega búið að stefna að því að keyra öll þessi lönd í gær og með takmörkuðu úrvali í þeim löndum þar sem ekki er búið að semja um meira efni. Á íslenska Netflix er í dag lítið efni textað og barnaefni ekki talsett. Það verða þó úrbætur úr því þegar fram líða stundir,“ segir Sverrir og bætir við að barnaefni sé talsett á Netflix í Norðurlöndunum.

„En það verður áhugavert að sjá hvort að Íslendingum finnist þetta nóg eða hvort þeir vilji áfram flakka á milli Netflix landa til að fá meira efni.“

Aðspurður hvort að það sé mikið mál að flakka á milli landa á Netflix segir Sverrir það alls ekki flókið. „Til þess að nota Netflix erlendis frá á Íslandi þarf að nota svokallaða DNS þjónustu. Til þess að flakka á milli landa þarf bara að fara inn á heimasíðu þinnar DNS þjónustu, breyta um „Netflix land“, loka og opna Netflix og þá er þetta komið. Það þarf ekkert að breyta DNS tölunni eða eitthvað slíkt þannig að þetta er voða lítið mál og allar þessar helstu DNS þjónustur bjóða allar uppá þann möguleika að hoppa á milli landa.“

Notendum Netflix alltaf að fjölga

Sverrir segir það líta út fyrir að fólk skiptist í tvennt þegar það kemur að hinu íslenska Netflix. „Maður hefur annarsvegar heyrt af fólki sem ætla að láta slag standa og sjá hvernig íslenska Netflix verður en ég hef líka heyrt í öðrum sem segja þetta breyta engu fyrir sig og munu halda áfram með bandaríska áskrift.“

Einnig eru komnar sérstakar Netflix leitarvélar að sögn Sverris sem hægt er að nota til að fá aðgang að meira efni.

Hann á erfitt með að spá fyrir vinsældir Netflix á Íslandi í ljósi þess hversu margir eru þegar komnir með þjónustuna í gegnum krókaleiðir. Einstein.is býður upp á leiðbeiningar um hvernig hægt er að setja upp Netflix hér á landi. Færslan „Notaðu Netflix á Íslandi“ kom inn á vefinn í október 2011 og er enn þann dag í dag vinsælasta færslan á vefnum.

„Ég hélt að þetta myndi róast fyrir ári eða tveimur en svo sé ég sífellt aukinn lestur á þessum leiðarvísi þannig það virðist sem notendum Netflix á Íslandi sé alltaf að fjölga.“

Sverrir er ritstjóri einstein.is
Sverrir er ritstjóri einstein.is
Úrvalið er ólíkt í bandarísku og íslensku útgáfu Netflix.
Úrvalið er ólíkt í bandarísku og íslensku útgáfu Netflix. Skjáskot af íslensku útgáfu Netflix
Framkvæmdastjóri Netflix kynnti breytingarnar í gær í Las Vegas.
Framkvæmdastjóri Netflix kynnti breytingarnar í gær í Las Vegas. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert