Vilja umboðsmann flóttamanna

Flóttafólk í Serbíu.
Flóttafólk í Serbíu. AFP

Sex þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram nýja þingsályktunartillögu um undirbúning að stofnun embættis umboðsmanns flóttamanna á Íslandi.

Í tillögunni er tekið undir það sjónarmið að samþætta þurfi þá þjónustu sem íslensk stjórnvöld geta veitt útlendingum eins og gert er ráð fyrir í frumvarpsdrögum að nýjum útlendingalögum. Jafnframt sé þó mikilvægt að hagsmunagæsla og réttaraðstoð við útlendinga sé á einni hendi utan Útlendingastofnunar.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, fyrsti flutningsmaður tillögunnar, segir að Útlendingastofnun, sem hefur úrskurðarvald og rannsóknarskyldu í málefnum hælisleitenda og flóttamanna, geti ekki bæði farið með ákvörðunarvald og hagsmuna- og réttindagæslu.

„Það er mikill munur á aðstæðum þeirra flóttamanna sem koma hingað sjálfir eða hinna  svonefndu kvótaflóttamanna sem stjórnvöld hafa boðið hingað. Fyrrnefndi hópurinn fær sáralitla aðstoð á meðan síðarnefndi hópurinn fær ágæta aðstoð,“ segir Ólína um þörfina á samræmdum aðgerðum fyrir flóttafólk.

 „Útlendingastofnun hefur setið undir ákveðnu ámæli og þeir sem til þekkja hafa verið að kalla eftir auknu samræmi í því hvernig farið er með málefni flóttamanna og sérstaklega í því sem lýtur að hagsmunagæslu og aðstoð.“

Telur hún að með nýju embætti umboðsmanns flóttamanna megi lægja þær reiðiöldur sem skollið hafa á Útlendingastofnun á síðustu mánuðum.

„Almenningur hefur talið stofnunina vera að gera mistök og að þar séu ekki öll málefnaleg sjónarmið tekin til greina. En ef sérstakur aðili hefði beinlínis það hlutverk að gæta þess að flóttamenn fengju allar nauðsynlegar leiðbeiningar og aðstoð andspænis útlendingastofnun, og  að þar sé tekið tillit til allra þeirra sjónarmiða sem koma að gagni fyrir flóttamanninn þá myndum við minnka hættuna á þessu.“

Tryggja yfirsýn og utanumhald

Í dag eiga ýmsar stofnanir og aðilar aðkomu að málefnum flóttafólks þ.á.m. Rauði krossinn á Íslandi sem í fyrra tók að sér að útvega þeim talsmann sem sækja um alþjóðlega vernd, með samningi við innanríkisráðuneytið. Rauði krossinn þiggur því fjárframlög frá ráðuneytinu vegna verkefnisins og eins og segir í frumvarpinu hefur verið bent á að það fjárveitingasamband geti ógnað sjálfstæði samtakanna.

Ólína segir hugmyndina þó ekki endilega vera að færa verkefni Rauða krossins eða annarra stofnanna og embætta sem koma að hagsmuna- og réttindagæslu í málaflokknum til umboðsmanns flóttafólks. Frekar eigi að kanna kosti þess að samþætta þá ráðgjöf og aðstoð sem flóttamönnum býðst, en útfærsla á verkefnum embættisins geti verið síðari tíma mál. Þannig geti embættið ákveðið að útdeila verkefnum í réttindagæslu til Rauða krossins en munurinn sé sá að þá séu mannréttindasamtökin ekki í fjárhagssambandi við innanríkisráðuneytið heldur við sjálfstæða stofnun.

Hún segir talsmenn Rauða krossins vera jákvæða fyrir hugmyndinni og að sjálf sé hún sannfærð um að aðstoð við flóttamenn þurfi að vera á einni hendi til að tryggja yfirsýn og utanumhald.

„Þetta er það sem á dönsku er kallað „sagsbehandling“. Danir eru með „sagsbehandler“, talsmann eða umboðsmann í ýmsum málaflokkum en við Íslendingar erum komin mun skemmra á veg með þetta. Reynslan sýnir að það er full þörf á þessu fyrir flóttamenn,“ segir Ólína.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert