Alltaf verið skapandi

Mæðgurnar Júlía Guðrún Lovisa Henje og Guðrún Pálína Ólafsdóttir.
Mæðgurnar Júlía Guðrún Lovisa Henje og Guðrún Pálína Ólafsdóttir. mbl.is/Eggert

Júlía Guðrún Lovisa Henje leikur í spennuþáttunum Ófærð. Hún er ákveðin í því að verða söngkona og leikkona þegar hún er orðin stór. Tökurnar á Siglufirði eru eftirminnilegar og væri hún vel til í að endurtaka leikinn.

Júlía er tíu ára, „að verða ellefu í febrúar“ og gengur í 5. bekk Fossvogsskóla. Persóna hennar í þáttunum heitir Perla og er dóttir lögreglustjórans Andra (Ólafur Darri Ólafsson) og Agnesar (Nína Dögg Filippusdóttir). 

Móðir hennar, Guðrún Pálína Ólafsdóttir, segir að hún hafi alla tíð verið mjög skapandi einstaklingur og fyrir utan leikinn og sönginn hafi hún gjarnan verið að teikna og skrifa sögur. Júlía er einnig byrjuð að læra á píanó.

En hvort finnst Júlíu skemmtilegra, að syngja eða leika?

„Ég get ekki sagt það. Það er jafn skemmtilegt.“

Veistu hvað þú vilt verða í framtíðinni?

„Leikkona og söngkona,“ svarar Júlía án umhugsunar.

Hvernig var að leika fyrir framan myndavél?

„Fyrst horfði ég pínu í hana en síðan sagði leikstjórinn að ég ætti ekki að horfa í hana og þá reyndi ég að ímynda mér að hún væri ekki þarna,“ segir Júlía og bætir við að maður þurfi að vera mjög einbeittur.

Hún lætur ekki á sig fá að umfjöllunarefnið sé óhugnanlegt. „Þetta er allt í plati,“ segir hún.
Hún væri sannarlega til í að gera eitthvað svipað aftur. „Ef einhver býður mér það mundi ég þiggja það. En foreldrarnir þurfa auðvitað að samþykkja.“

Þær mæðgur eru í viðtali í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina um lífið á tökustað og reynsluna af því að taka þátt í svona stóru verkefni.

Stilla úr Ófærð. Hér sést Júlía í hlutverki sínu sem …
Stilla úr Ófærð. Hér sést Júlía í hlutverki sínu sem Perla dóttir Andra lögreglustjóra og Agnesar. mbl.is
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert