Sex ára fangelsi liggur við brotunum

Lögreglustöðin á Hverfisgötu. Maðurinn starfaði fyrir fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Lögreglustöðin á Hverfisgötu. Maðurinn starfaði fyrir fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Þórður

Brotin sem lögreglumaðurinn sem handtekinn var í lok síðasta mánaðar er sakaður um varða eins til sex ára fangelsi. Hafi hann afhent upplýsingar gegn greiðslu gæti sá sem mútaði honum átt yfir höfði sér allt að þriggja ára fangelsi. Maður sem lögreglumaðurinn er talinn hafa verið í sambandi við situr í gæsluvarðhaldi.

Lögreglumaðurinn er grunaður um að hafa lekið upplýsingum og jafnvel hafa þegið greiðslur fyrir. Hann hefur verið starfandi fyrir fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hann sat í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar málsins frá því fyrir áramót.

Annar maður, sem talinn er hafa verið í samskiptum við lögreglumanninn, var í gær úrskurðaður í gæsluvarðhald til 15. janúar. Haldið hefur verið fram í fjölmiðlum að maðurinn tengist fíkniefnaheiminum.

Alvarlegra hafi hann þegið fé fyrir

Samkvæmt heimildum mbl.is varða meint brot lögreglumannsins við 128. og 136. grein hegningarlaga. Í þeirri fyrrnefndu er kveðið á um að ef opinber starfsmaður „heimtar, tekur við eða lætur lofa sér eða öðrum gjöfum eða öðrum ávinningi, sem hann á ekki tilkall til, í sambandi við framkvæmd starfa síns“ þá skuli hann sæta allt að sex ára fangelsi eða sektum ef hann hefur málsbætur.

Síðari greinin varðar þagnarskyldu opinberra starfsmanna. Þar er kveðið á um eins árs fangelsi fyrir opinbera starfsmenn sem „segi frá nokkru, er leynt á að fara og hann hefur fengið vitneskju um í starfi sínu eða varðar embætti hans eða sýslan“. Sé það gert til að afla óréttmæts ávinnings varðar brotið allt að þriggja ára fangelsi.

Brot þess sem mútar lögreglumanni varðar 109. grein hegningarlaga og varðar það allt að þriggja ára fangelsi.

„Hver sem gefur, lofar eða býður opinberum starfsmanni gjöf eða annan ávinning, sem hann á ekki tilkall til, í þágu hans eða annarra, til að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert sem tengist opinberum skyldum hans skal sæta fangelsi allt að 3 árum eða sektum ef málsbætur eru fyrir hendi,“ segir orðrétt í greininni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert