Sýnikennsla á landreki í Eldvörpum

Hluti gíganna í Eldvörpum.
Hluti gíganna í Eldvörpum.

Rannsóknarborholur HS orku við Eldvörp gætu orðið tvær upp í fimm talsins og ef árangur af þeim er jákvæður má gera ráð fyrir að farið verði í að virkja á svæðinu. Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem svæðið er rannsakað, því lítil borhola hefur verið þar síðan 1983, en meðal annars er reiknað með því að önnur dýpri hola verði gerð á sama stað. Þetta kallar þó allt á að fleiri borplön verði reist, eða eitt fyrir hverja borholu auk þess sem áætlað er að vegslóðum verði breytt í vegi. Þetta segja forsvarsmenn HS Orku um væntanlega vinnslu á svæðinu.

Mbl.is fjallaði í fyrri grein um grunvallar ástæður þess að tekist er á um rannsóknarholurnar og mögulega virkjun, en þar takast á sjónarmið umhverfisverndar og HS Orku. Telur HS Orka sjónarmið beggja aðila rúmast saman í tengslum við framkvæmdina meðan mótmæli umhverfissinna hafa miðað að því að fjölgun borhola þýði breytt ásýnd svæðisins þar sem einstakri gígamynd á svæðinu verði fórnað.

Borhola og vegur þegar á staðnum

Áætlað rannsóknarsvæði í Eldvörpum er aðeins 3 kílómetra vestan við Bláa lónið og um 5 kílómetrum frá Svartsengi, þar sem HS Orka er með aðra jarðvarmavirkjun. Aðdragandi framkvæmdanna er nokkur, en fyrsta borholan, sem kallast EG-2, var boruð árið 1983. Er hún staðsett milli tveggja gíga í gígaröðinni og var lagður vegslóði þar að á sínum tíma. Ef áform HS Orku ganga eftir verður slóðinn einnig nýttur til að komast langleiðina að hinum fjórum borpöllunum sem setja á upp.

Núverandi borplan EG-2 borplansins og væntanleg stækkun þess. Nærstaddir gígar …
Núverandi borplan EG-2 borplansins og væntanleg stækkun þess. Nærstaddir gígar eru merktir með rauðu.

Hingað til hefur EG-2 holan verið látin duga sem mælingarhola og fylgst með henni samhliða Svartsengi. Samkvæmt Ásbirni Blöndal, framkvæmdastjóra þróunarsviðs HS Orku, hefur hún meðal annars verið notuð til að greina samtengingu milli Svartsengis og Eldvarpa.

Sama fyrirtæki með auðlindastefnu og skýrslu HS Orku

Árið 2009 hóf HS Orka aftur á móti viðræður við Grindavík um skipulagsmál svæðisins og í kjölfarið fór Grindavík að vinna að þeim málum. Fljótlega var þó ákveðið að setja skipulagsbreytingar í hrauninu á bið þangað til auðlindastefna bæjarins lægi fyrir.

Í apríl 2010 var svo auðlindastefnan samþykkt í bæjarstjórn og hófst þá vinna við aðalskipulag sem var samþykkt í maí 2012. Frá þeim tímapunkti og til loka árs 2014 var unnið að deiliskipulagi fyrir rannsóknaboranir á svæðinu og var í janúar 2014 kynnt frummatsskýrsla VSO ráðgjafar fyrir HS Orku um mat á umhverfisáhrifum vegna borananna. Hafði VSO áður einnig komið að gerð auðlindarstefnu Grindavíkur. Í frummatsskýrslunni kemur fram að í henni sé ekki verið að meta virkjun heldur aðeins tilraunaboranir.

Þá segir að lögð sé áhersla á að draga eins og kostur er úr raski á hrauni og með það fyrir augum hafi verið fallið frá áætlun um sjötta borplanið þannig að slóðagerð verði lágmörkuð. Þá er sagt að heildarrask framkvæmdanna verði á bilinu 15 þúsund til 23 þúsund fermetrar, en heildarflatarmál Eldvarpahraunsins er 20 milljón fermetrar (20 ferkílómetrar).

Tímalína framkvæmda og skipulagsmála í Eldvörpum.
Tímalína framkvæmda og skipulagsmála í Eldvörpum. Mynd/mbl.is

Umhverfisáhrifin óveruleg neikvæð upp í talsvert neikvæð

Heildarniðurstaða matsskýrslunnar um umhverfisáhrif vegna framkvæmdanna er að þau verði ekki umtalsvert umhverfisáhrif: „Áhrif framkvæmda á einstaka umhverfisþætti eru metin óveruleg neikvæð í öllum tilfellum nema hvað varðar landslag og hljóðvist þar sem áhrifin eru metin talsverð neikvæð. Heildarniðurstaðan er að áhrif framkvæmdarinnar séu á bilinu óveruleg til talsverð neikvæð. Framkvæmdin kemur ekki til með að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.“

Virkjanaframkvæmdir hefði umtalsverð umhverfisáhrif

Í lok janúar þetta sama ár sendi Umhverfisstofnun frá sér umsögn um frummatsskýrslu VSO. Þar segir meðal annars: „Við fyrirhugaðar framkvæmdir mun verða enn frekari röskun á landslagsheild sem samanstendur af gígum og hraunum. Framkvæmdin mun hafa neikvæð áhrif á landslag vegna borplana og væntanlegra lagna vegna legu þeirra um hraun og nálægðar við eldvörp. Framkvæmdin er innan svæðis nr. 106 á náttúruminjaskrá og er svæðið á skránni m.a. vegna stórbrotinnar jarðfræði. Að auki var svæðið á náttúruverndaráætlun 2004-2008 en sérstaða svæðisins hefur verið metin mikil og þá sér í lagi hvað varðar jarðmyndanir.“ 

Þá er bent á að í þingsályktun um náttúruverndaráætlun fyrir 2009-2013 segi að „hvergi annars staðar sé að finna eins glögg merki um jarðhræringar í jarðskorpunni eins og á þessu svæði.“ Niðurstaða Umhverfisstofnunar er einnig á þann veg að áhrifin verði talsvert neikvæð vegna framkvæmdarinnar. Þá er komið inn á að ef niðurstaða borana verði jákvæð og farið verði í virkjun þá verði áhrifin meiri. „Slík niðurstaða rannsóknaborana myndi hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér þar sem lítt röskuðu hrauni og gígaröð sem talin eru fátíð á Reykjanesskaga yrði raskað á óafturkræfan hátt,“ segir í umsögninni.

Núverandi borpallur EG-2, sem er á milli tveggja gíga í …
Núverandi borpallur EG-2, sem er á milli tveggja gíga í gígaröðinni. Holan var boruð árið 1983.

Enginn kærði framkvæmdaleyfið

Í mars á síðasta ári var svo nýtt deiliskipulag fyrir svæðið kynnt og í nóvember var framkvæmdaleyfi fyrir borunina auglýst af Grindavík. Kærufrestur var til 5. desember, en engin kæra barst vegna málsins. 

Mbl.is bað Kristján Jónasson, jarðfræðing hjá Náttúrufræðistofnun, að útskýra jarðsögu og gildi svæðisins í ljósi þeirra deilna sem uppi eru um frekari boranir á svæðinu. Segir Kristján að um sé að ræða gjallgíga sem hafi myndast í eldgosum á 13. öld. Almennt séu svona gígar sérstök fyrir Ísland og menn komi hingað til lands til þess að sjá svona fyrirbæri.

Góður staður til að sjá hvernig landrekið virkar

Sambærilega staði segir Kristján ða helst megi í Gjástykki, Lakagígum og á Veiðivatnasvæðinu. Þá segir hann að um sé að ræða svo gott sem óraskaða gígaröð sem standi á jafnsléttu. „Það er dæmigert fyrir landrek og góður staður til að sjá hvernig landrekið virkar,“ segir hann.

„Það eru ekki sambærilegar heilar gígaraðir á suðvesturhorninu eða Reykjanesi,“ segir Kristján aðspurður um hvort röðin sé einstök fyrir svæðið. Bætir hann við að búið sé að skemma meirihluta slíkra staða á Reykjanesi með efnistöku.

Gufan sem stígur upp úr hrauninu á ákveðnum stöðum getur …
Gufan sem stígur upp úr hrauninu á ákveðnum stöðum getur sett töfrandi blæ á umhverfið. Mynd/Ellert Grétarsson

Frekari borun myndi draga úr aðdráttarafli staðarins

Með frekari borunum á staðnum eða virkjun segir Kristján að það myndi draga verulega úr aðdráttarafli fyrir ferðamenn til að skoða staðinn. „Fólk kemur ekki oft til Íslands til að skoða virkjanir heldur vill það lítt snortna náttúru,“ segir hann og bætir við að einfalt væri að gera enn meira úr svæðinu og jarðfræðilegri merkingu þess. Segir hann tengingu þess við vísindin og vísindasöguna til dæmis sterka og að með svipað gos í Kröflueldum hafi loks landrekskenningin verið staðfest um að landið væri að gliðna.

Kristján tekur fram að gígaröðin við Eldvörp sé ekki jafn tilkomumikil og Lakagígar, en þó sé um að ræða stað sem sé nálægt höfuðborginni og mikilli umferð t.d. ferðamanna. „Þarna er fórnað merkum jarðminjum fyrir tiltölulega litla viðbót við Svartsengi,“ segir Kristján að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert