Mátti Moore mynda á Kvíabryggju?

Umboðsmaður Alþingis spyr fangelsismálastjóra m.a. um hvort að Michael Moore …
Umboðsmaður Alþingis spyr fangelsismálastjóra m.a. um hvort að Michael Moore hafi fengið leyfi til að mynda á Kvíabryggju og hvernig fangar þar hafi þá verið upplýstir um málið. mbl.is/Gunnar Kristjánsson

Eitt af þeim atriðum sem umboðsmaður Alþingis, Tryggvi Gunnarsson, óskar eftir að fá útskýringar á frá Páli Winkel fangelsismálastjóra er hvort kvikmyndagerðarmaðurinn Michael Moore hafi fengið leyfi til að mynda á Kvíabryggju, líkt og þrír fangar kvarta yfir í erindi til umboðsmanns.

Frétt mbl.is: Kvartað undan fangelsismálastjóra

Í bréfi umboðsmanns, sem hann sendi fangelsismálastjóra á gamlársdag, og mbl.is hefur undir höndum, segir að í kvörtun þremenninganna, þeirra Magnúsar Guðmundssonar, Ólafs Ólafssonar og Sigurðar Einarssonar, sem allir voru dæmdir í fangelsi í Al Thani-málinu, sé því haldið fram að tökulið kvikmyndagerðarmannsins Michael Moore hafi eytt næstum heilum degi í fangelsinu Kvíabryggju. Tilgangurinn hafi verið að reyna að ná myndum af þeim Magnúsi, Ólafi og Sigurði. „Ég óska eftir upplýsingum og gögnum um hvort umræddur kvikmyndatökumaður og/eða tökulið hans hafi fengið leyfi Fangelsismálastofnunar til að taka upp í fangelsinu Kvíabryggju og ræða við fanga um Magnús, Ólaf og Sigurð,“ segir í bréfi umboðsmanns til fangelsismálastjóra.

Ef svo er, óskar umboðsmaður eftir upplýsingum um á hvaða sjónarmiðum það leyfi hafi verið veitt og hvernig það samrýmist 16. gr. reglugerðar nr 961/2005. „Í þessu samhengi hef ég einnig í huga friðhelgi einkalífs fanga,“ skrifar umboðsmaður.

„Ég óska jafnframt eftir að fá afhent öll gögn um tilefni komu og dvalar ofangreinds tökuliðs í fangelsinu Kvíabryggju, þ.m.t. beiðni um að fara í fangelsið og afgreiðslu á henni og um viðtöl við einstaka fanga og samþykki á því hvar myndataka mætti fara fram í fangelsinu. Þá óska ég eftir upplýsingum um hvernig þeim föngum sem vistaðir voru í fangelsinu Kvíabryggju, þegar tökuliðið kom þangað, var kynnt koma þeirra og heimildir til athafnar þar.“

Kvörtun þremenninganna er í fjórum liðum og snýst um ummæli Páls fangelsismálastjóra í fjölmiðlum á síðasta ári, m.a. í frétt Morgunblaðsins um að beiðnir hafi komið frá ákveðnum föngum um að fá að neyta rauðvíns og annarra áfengra drykkja með mat í fangelsinu.

Michael Moore er þekktur heimildamyndagerðarmaður.
Michael Moore er þekktur heimildamyndagerðarmaður. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert