Taka verði tillit til sögunnar

Nýframkvæmdir í Frankfurt í klassískum stíl.
Nýframkvæmdir í Frankfurt í klassískum stíl. Ljósmynd/Domromer.de

„Það er mikið byggt á Íslandi þessa dagana og það er ekkert því til fyrirstöðu að tíska ársins 2016 og næstu ára fái að njóta sín í þúsundum bygginga. En þegar kemur að því að nýta mikilvægasta byggingarreit í elstu byggð Reykjavíkur gæti þá ekki verið ráð að huga að samhenginu?“

Þannig spyr Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á vefsíðu sinni í dag varðandi byggingaráform á milli Lækjartorgs og Reykjavíkurhafnar. Sigmundur hefur gagnrýnt áformin harðlega, meðal annars í viðtali í Morgunblaðinu í gær, en honum þykir ekki tekið nægjanlegt tillit til þeirra bygginga sem fyrir eru í miðborg Reykjavíkur og menningar og sögu miðbæjarins. Bendir hann ennfremur á að hann hafi lengi gagnrýnt byggingaráform á svæðinu.

Frétt mbl.is: Hafnartorgið „skipulagsslys“

„Oft er auðveldara að meta hluti eftir á en fram í tímann. Þess vegna getur verið gagnlegt að ímynda sér að maður sé í framtíðinni að líta aftur. Telur einhver að ef fallið verður frá áformum um stóra tískukassa, anno 2015, í miðbæ Reykjavíkur muni menn eftir 50 ár segja: „Bara að menn hefðu nú byggt stóru fjölbýlis og skrifstofuhúsin í Kvosinni á sínum tíma,“ segir forsætisráðherra og vísað til áforma á sínum tíma um slíka uppbyggingu.

Sigmundur Davíð forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Gamlar hugmyndir frá Frankfurt endurvaktar?

Sigmundur tekur síðan dæmi frá borginni Frankfurt í Þýskalandi. Þar hafi í lok áttunda áratugarins verið byggt nýtt ráðhús í samræmi við tísku þess tíma. Húsið hafi hins vegar verið rifið fyrir nokkrum árum og hafi það mælst vel fyrir á meðal borgarbúa. Samkeppni hafi verið haldin í kjölfarið um ný hús í staðinn og vinningstillagan hafi verið mjög í anda þeirra bygginga sem í dag standi til að reisa við Reykjavíkurhöfn.

Frétt mbl.is: Ósammála sýn forsætisráðherra

„Borgarbúar voru hins vegar ekki sáttir. Hvers vegna mátti ekki byggja slíkar byggingar einhvers staðar annars staðar í þessari stórborg þar sem menn horfðu upp á sambærilegar framkvæmdir um allt? Það sem borgin þurfti á að halda var að styrkja gamla bæinn og yfirbragð hans,“ segir Sigmundur. Fólk hafi orðið vitni að árangursríkri uppbyggingu klassískra húsa meðal annars við Römertorg þar sem reist höfðu verið slík hús árið 1984.

„Það varð úr að farið var að vilja íbúanna. Horfið var frá því að byggja samkvæmt tísku ársins 2005 og þess í stað ráðist í að endurheimta meira af hinni sögulegu, sérstæðu og fallegu Frankfurt. Framkvæmdir standa nú yfir en árangurinn hefur verið framar vonum, þ.e. ákveðið var að fjölga hinum „sögulegu“ húsum,“ segir ráðherrann ennfremur.

Vinningstillagan frá Frankfurt 2005 sem fallið var frá og áform …
Vinningstillagan frá Frankfurt 2005 sem fallið var frá og áform um uppbyggingu við Reykjavíkurhöfn. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert