Dómurinn mögulega aldrei birtur

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar

Ekki er víst að gæsluvarðhaldsdómur Hæstaréttar í máli lögreglumannsins sem var handtekinn fyrir áramót og settur í gæsluvarðhald muni nokkurn tímann birtast opinberlega. Ríkissaksóknari fór fram á að dómurinn yrði ekki birtur og segir Helgi Magnús Gunnarsson aðstoðarríkissaksóknari að kannski verði hann aldrei birtur.

Segir hann að það fari eftir því hvað embættið óski eftir og að eins og staðan sé núna hafi engin ákvörðun verið tekin um hvort birta eigi dóminn eða ekki.

Mbl.is greindi fyrir stuttu frá því að maðurinn hefði verið leystur frá störfum hjá lögreglunni um stundasakir. Fer mál hans nú í skoðun hjá sérstakri nefnd um slík mál.

Annar karlmaður var handtekinn vegna þessa máls og settur í gæsluvarðhald. Gæsluvarðhaldsúrskurður yfir honum rennur út á föstudaginn, en var kærður af manninum til Hæstaréttar. Helgi segir að enn hafi ekkert borist frá Hæstarétti um niðurstöðu þess og að engin ákvörðun hafi verið tekin um hvort sleppa eigi manninum fyrr út eins og gert var með lögreglumanninn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert