Fjölmiðlar að undirbúa fár

Ólafur Ólafsson átti í tölvupóstsamskiptum vegna reiðnámskeiðs.
Ólafur Ólafsson átti í tölvupóstsamskiptum vegna reiðnámskeiðs. mbl.is/Þórður

„Vildi að ég gæti tekið allan vafa með þetta [leyfi fyrir reiðnámskeiðinu]. Páll vill frá að skoða þetta betur./ Hann ætlar að reyna að vera með endanlegt svar á föstudag./ Fjölmiðlar eru að undirbúa fár í kringum þetta sem enginn okkar mun koma vel út úr.

Þetta segir í tölvupósti Birgis Guðmundssonar, forstöðumanns fangelsisins að Kvíabryggju, til Ólafs Ólafssonar sem dagsett var þann 28.október sl., sbr. bréf Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns Alþingis, til Páls Egils Winkel fangelsismálastjóra.

Í bréfinu er í nokkrum liðum fjallað um reiðnámskeið sem greint var frá á Vísi en þar sagði að Landbúnaðarháskóli Íslands hefði skipulagt sérstakt reiðnámskeið fyrir fimm fanga Kvíabryggju. Sagt var frá því að send hefði verið inn beiðni til fangelsismálayfirvalda þar sem óskað var eftir leyfi til að stunda slíkt nám.

Í fréttinni sagði einnig að námskeiðið sé dýrt og skv. heimildum fjölmiðilsins hefðu það verið „þeir bankamenn sem nú afplána á Kvíabryggju sem vildu læra að sitja hest.“ Námskeiðið var slegið af.

Í bréfi Tryggva segir:

„Í frétt á visir.is hinn 10. nóvember sl. er vitað til yðar þar sem segir að umrætt reiðnámskeið hafi verið stoppað af á síðustu stundu. Með kvörtun Magnúsar, Ólafs og Sigurðar fylgdi afrit af tölvubréfasamskiptum Ólafs við forstöðumanns fangelsisins Kvíabryggju. Af þeim verður ráðið að Ólafur hafi verið í sambandi við forstöðumanninn frá því í júní sl. og forstöðumaðurinn hafi verið í samskiptum við fangelsismálastofnun.“

Páll hrifinn af fjórða valdinu

Í tölvupósti forstöðumannsins til Ólafs, sem dagsett er 2. nóvember, segir til dæmis. „Að gefnu tilefni má árétta það sem stofnunin hefur gefið grænt ljós á í tengslum við reiðnámskeið fanga,“ og segir jafnframt að af tölvupóstinum verði ráðið að fangelsismálastofnun hafi gefið leyfi fyrir reiðnámskeiðinu með tilteknum skilyrðum.

Í morgunútvarpi Rásar 2 11. nóvember var Páll spurður að því hvernig málinu hefði lyktað og hvort námskeiðið yrði haldið. Svar hans var svohljóðandi: Nei svo aftur kom í ljós svona aftur er það fjórða valdið sem ég er ákaflega hrifið af að um leið og þetta fór í fjölmiðla þá og einhverra hluta vegna var hætt við þetta námskeið. Svona er þetta nú bara.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert