Áhöld um hvarf Íslendings í Paragvæ

Frá borginni Concepción í Paragvæ þar sem Guðmundur er sagður …
Frá borginni Concepción í Paragvæ þar sem Guðmundur er sagður hafa verið stöðvaður af lögreglu 1. nóvember árið 2013. Wikipedia/Arcadiuš

Íslensks karlmanns á fertugsaldri er saknað í Paragvæ að því er kemur fram í þarlendum fjölmiðlum. Þar segir ennfremur að íslensk lögregla óttist um líf mannsins. Paragvæsk yfirvöld hafa ekki frétt af manninum frá því í nóvember 2013 þegar hann var stöðvaður af lögreglu.

Í frétt á vefsíðu ABC Color í Paragvæ kemur fram að tilkynnt hafi verið um hvarf hins 31 árs gamla Guðmundar Spartakusar Ómarssonar. Haft er eftir íslenskum lögregluyfirvöldum að óttast sé um líf hans þar sem langt sé síðan hann lét vita af sér. Ekki hafi heldur verið útilokað að Guðmundur hafi haft tengsl við höfuðpaura fíkniefnasmygls í Brasilíu og Paragvæ.

DV hefur hins vegar eftir föður mannsins að hann hafi síðast heyrt í honum í gegnum Skype fyrir áramót. Bæði DV og RÚV segja að Guðmundur hafi verið á ferð með Friðriki Kristjánssyni sem hefur verið saknað í Paragvæ frá því á vormánuðum 2013. Grunur hafi leikið á að Guðmundur hafi gert Friðriki mein. Þegar síðast spurðist til Friðriks var hann á leið frá Brasilíu til Paragvæ.

Samkvæmt upplýsingum utanríkisráðuneytisins hefur mál Guðmundar ekki komið inn á borð þess.

Upphaflega sögðu fulltrúar Interpol í Paragvæ við íslensk lögregluyfirvöld að engin gögn væru til um að Guðmundur hafi komið til landsins, samkvæmt frétt ABC Color. Síðar hafi hins vegar komið í ljós að hann var stöðvaður af lögreglu í borginni Concepción 1. nóvember árið 2013 og framvísaði hann vegabréfi sínu. Lögreglumaður tók meðal annars mynd af vegabréfinu. Þá var hann í bíl ásamt tveimur paragvæskum ríkisborgurum. Engin gögn eru til um ferðir Guðmundar í landinu eftir það.

Frétt ABC Color af hvarfi Guðmundar Spartakusar Ómarssonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert