Júlía hefur sjónvarpsferilinn í spennuþáttunum Ófærð

Júlía Guðrún Henje er tíu ára en verður 11 í …
Júlía Guðrún Henje er tíu ára en verður 11 í febrúar. Eggert Jóhannesson

Ég fékk símtal þar sem Júlíu var boðið að koma í prufu fyrir sjónvarpsþætti. Meira vissum við ekki á þeim tímapunkti,“ segir Guðrún Pálína Ólafsdóttir, móðir leikkonunnar ungu, Júlíu Guðrúnar Lovisu Henje, sem fer með hlutverk í Ófærð. Hún vissi strax að dótturinni þætti þetta spennandi en áhugi hennar liggur allur á þessu sviði. „En við höfum enga tengingu við þennan bransa,“ segir Guðrún en hún og faðir Júlíu, Per Matts Henje, eru bæði viðskiptafræðingar.

Júlíu fannst þetta strax spennandi, fór í tvær prufur og fékk hlutverkið. Persóna Júlíu heitir Perla og er dóttir lögreglustjórans Andra (Ólafur Darri Ólafsson) og Agnesar (Nína Dögg Filippusdóttir). Hún sást vel í kynningarstiklunni fyrir þættina og kom töluvert mikið við sögu í fyrsta þættinum. „Miklu meira en við héldum,“ segir Guðrún.

Voru í væntingastjórnun

„Við vorum búin að vera í væntingastjórnun því maður hefur svo oft heyrt að fólk lendi í því að vera klippt út og maður geti aldrei alveg vitað hvað birtist á endanum á skjánum. Júlíu finnst þetta svo gaman að við vorum búin að ákveða að gleðjast yfir hverri einustu sekúndu sem hún sést,“ segir Guðrún þannig að fjölskyldan hefur fengið mörg tækifæri til að gleðjast.

Þær mæðgur útskýra að viðhorfið hafi verið að líta á þetta sem góða reynslu en ekki einblína á stærð hlutverksins.

Júlía segir að það hafi verið góð tilfinning að setjast fyrir framan sjónvarpið með fjölskyldunni og horfa á sjálfa sig. Hún var þó búin að sjá sig á stærri skjá áður en fyrsti þátturinn var sýndur á RIFF og tveir fyrstu voru sýndir í röð í Bíó Paradís fyrir frumsýninguna á RÚV. Þættirnir, sem eru framleiddir af Rvk. Studios eru á dagskrá á sunnudagskvöldum og hafa notið mikilla vinsælda.

En hvað fannst mömmunni um að sjá dótturina á skjánum?

„Mér fannst það bara virkilega gaman. Hún hefur svo gaman af þessu sjálf. Okkur foreldrunum fannst hún svo flott og vorum svo stolt af henni. Maður fékk smá fiðrildi í magann líka,“ segir hún.

Júlía er tíu ára, „að verða ellefu í febrúar“ og gengur í 5. bekk Fossvogsskóla. Í raunveruleikanum á hún sex ára systur, Kötlu Kristínu Elisabetu, sem er í 1. bekk. Í þáttunum á hún hinsvegar eldri systur sem Elva María Birgisdóttir leikur.

Krakkarnir héldu hópinn

„Hún var mikil fyrirmynd og mjög góð við Júlíu. Alltaf að spila við hana eða sýna henni eitthvað, alltaf að gera eitthvað fallegt.“

Krakkarnir á tökustað héldu mikið hópinn en Jón Arnór Pétursson, sem lék Magga litla, var líka góður vinur. „Hann er mjög skemmtilegur,“ segir Júlía en krakkarnir gistu allir í sama húsi á Siglufirði þar sem tökurnar fóru að stórum hluta fram.

Júlía fór fjórum sinnum norður en til viðbótar voru innitökur í Reykjavík.

Stjörnufansinn í íslenska leikarahópnum hafði ekki mikil áhrif á Júlíu þar sem hún þekkti leikarana ekki fyrirfram en allir sem hún kynntist finnst henni skemmtilegir og svarar aðspurð á diplómatískan hátt að „allir“ séu í uppáhaldi.

Foreldrarnir skiptust á að fara með henni til Siglufjarðar en þá var flogið á Akureyri og keyrt þaðan. Stundum þurfti að keyra alla leiðina til baka til borgarinnar vegna þess að ófært var með flugi, sem er nú í anda þáttanna.

Allra eftirminnilegasti dagurinn á tökustað var þegar hún fagnaði tíu ára afmæli sínu fyrir norðan og fékk óvænt stóra súkkulaðiköku og margar skemmtilegar gjafir.

En hvernig skyldi Guðrún upplifa það að vera foreldri barns í skemmtanabransanum?

„Það er bara rosalega skemmtilegt að fá að fylgjast með barninu sínu að gera það sem því finnst skemmtilegast, að syngja og leika. Á meðan hún nýtur sín í því sem hún er að gera þá er maður glaður og gleðst þegar hún er glöð.“

Sumar ferðirnar norður voru lengri en aðrar og þurfti þá að taka skólabækurnar með. Þá gafst líka eitt sinn tækifæri til að fara á skíði, sem Júlíu fannst sérlega skemmtilegt.

Júlía í hlutverki Perlu, dóttur Andra lögreglustjóra, í Ófærð.
Júlía í hlutverki Perlu, dóttur Andra lögreglustjóra, í Ófærð. mbl.is

Söguþráðurinn trúnaðarmál

Hún svarar því játandi að krakkarnir í bekknum spyrji hana svolítið út í þættina. En er enginn að reyna að fá þig til að segja hvernig þetta endar?

„Sumir spyrja en auðvitað vita þeir að ég myndi segja: Það er trúnaðarmál. Þeir vita það alveg,“ segir hún þannig að leyndarmál Ófærðar eru alveg örugg í höndum Júlíu.

Hvernig var síðan að koma til baka í venjulega lífið eftir öll ævintýrin á tökustað?

Júlíu fannst það lítið mál en móðir hennar segir að þetta hafi verið svolítil breyting. „Á tökustað þarf maður að passa að allt sé í lagi, gæta þess að hún sé ekki svöng eða þurfi að fara á snyrtinguna þegar kemur að tökum. Maður þjónustar hana um það sem hana vanhagar um. Þegar heim er komið þarf hún síðan að gera þessa hluti sjálf, það var ákveðin breyting,“ segir Guðrún.

Júlía Guðrún Henje leikkona - Ófærð
Júlía Guðrún Henje leikkona - Ófærð Eggert Jóhannesson

Sumarnámskeið var upphafið

Hvenær fékk Júlía fyrst áhuga á leiklist?

„Ég fór þegar ég var í 2. bekk á sumarnámskeið hjá Sönglist með vinkonu minni. Mér fannst það rosalega skemmtilegt og hélt síðan áfram á námskeiðum. Svo sýni ég stundum í sal í skólanum þegar það er samvera. Maður má ráða hvað maður gerir. Ég hef sungið og sýnt leikrit með vinkonum mínum,“ segir Júlía en þær semja leikritin sjálfar. Hún var líka í leiklist í frístundaheimilinu í 3. og 4. bekk.

Móðir hennar segir að hún hafi alla tíð verið mjög skapandi einstaklingur og fyrir utan leikinn og sönginn hafi hún gjarnan verið að teikna og skrifa sögur. Hún er einnig byrjuð að læra á píanó.

En hvort er skemmtilegra, að syngja eða leika?

„Ég get ekki sagt það. Það er jafn skemmtilegt.“

Veistu hvað þú vilt verða í framtíðinni?

„Leikkona og söngkona,“ svarar hún án umhugsunar.

Hvernig var að leika fyrir framan myndavél? „Fyrst horfði ég pínu í hana en síðan sagði leikstjórinn að ég ætti ekki að horfa í hana og þá reyndi ég að ímynda mér að hún væri ekki þarna,“ segir Júlía og bætir við að maður þurfi að vera mjög einbeittur.

Hún lætur ekki á sig fá að umfjöllunarefnið sé óhugnanlegt. „Þetta er allt í plati,“ segir hún.

Hún væri sannarlega til í að gera eitthvað svipað aftur. „Ef einhver býður mér það mundi ég þiggja það. En foreldrarnir þurfa auðvitað að samþykkja.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert