Óska eftir að fresta málflutningi

Mbl.is/ Sigurgeir

Búið er að senda beiðni til Hæstaréttar um frestun á málflutningi í máli hollensku konunnar Mirjam Foekje van Twuijver og Atla Freys Fjölnissonar um smygl á um 20 kílóum af fíkniefnum til landsins. Málið tengist rannsókn sem héraðssaksóknari hefur hafið á störfum lögreglumanns sem sagður er hafa stýrt tálbeituaðgerð sem Mirjam tók þátt í en fór út um þúfur. Verjandi Atla,  Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, staðfestir þetta í samtali við mbl.is.

Mirjam Foekje van Twuijver kom ásamt dótt­ur sinni til lands­ins á föstu­dag­inn langa með flugi frá Amster­dam og áttu pantað flug­f­ar til baka á mánu­dags­morg­ni. Alls voru þær mæðgur með sam­tals 9.053,55 g af am­feta­míni að 69 til 70% styrk­leika, 194,81 g af kókaíni að 64% styrk­leika og 10.027,25 g af MDMA, að 78% styrk­leika, ætluðu til sölu­dreif­ing­ar hér á landi í ágóðaskyni, fal­in í tveim­ur ferðatösk­um.

Atli tók á móti pakkn­ing­um og tösku frá Mirjam, við Hót­el Frón að Lauga­vegi 22a, sem hann taldi að inni­héldu öll fram­an­greind áv­ana- og fíkni­efni, en þá hafði lögreglan skipt þeim út fyrir gerviefni og fylgdist með öllu. Var hann handtekinn, en fram hefur komið í fjölmiðlum að um mistök var að ræða þar sem reyna átti að rekja málið til hærra settra aðila sem sáu um innflutninginn.

Segir málsmeðferðina eiga að leiða til refsilækkunar

Vilhjálmur hefur lengi gagnrýnt málsmeðferðina og það sem hann kallar klúður lögreglunnar. Segir hann að rannsóknin núna gæti mögulega upplýst hverjir voru raunverulega á bak við innflutninginn og skipulagið. Slíkt ætti einnig að sýna að góður hugur hafi verið á bak við samvinnu Mirjam og það ætti því að koma til refsilækkunar.

Aðspurður hvort hann teldi rétt að málið færi aftur til héraðsdóms ef rannsókn héraðssaksóknara leiðir eitthvað saknæmt í ljós segir Vilhjálmur að ekki sé þörf á því heldur eigi málsmeðferðin og hugsanleg niðurstaða héraðssaksóknara um meinta saknæma háttsemi lögreglunnar að leiða til lækkunar refsingar ákærðu. Tekur Vilhjálmur fram að bæði Mirjam og Atli hafi játað aðild sína að málinu og ekki sé verið að deila um það.

Héraðsdómur ekki áhuga á að vita hvað fór úrskeiðis

Vilhjálmur er gagnrýninn á bæði framgöngu lögreglunnar og dómstóla í málinu, en hann segir að þrátt fyrir að nú sé góð vitneskja um að umræddur lögreglumaður hafi stýrt aðgerðinni, þá sé nafn hans ekki að finna á neinum skjölum málsins nema eins sem í raun skipti litlu máli. Því hafi hann ekki verið boðaður í dómsal þegar málið var tekið fyrir, enda varð aðkoma hans ekki ljós fyrr en talsvert seinna. „Það er með ólíkindum hvernig þetta hefur verið,“ segir Vilhjálmur.

Þá segir hann það vekja furðu að héraðsdómur hafi stöðvað spurningar hans við aðalmeðferð málsins þegar hann spurði lögreglumanninn sem boðaður var af ákæruvaldinu sem stjórnandi aðgerðarinnar á Hótel Frón. „Það var engu líkara en að héraðsdómur hafi ekki haft áhuga á að vita hvað fór úrskeiðis í umrætt skipti.“ Segir hann að útskýringar lögreglumannsins á því af hverju hætt var við að rannsaka málið nánar og höfuðpaura þess hafi verið „tæknileg atriði og almannahagsmunir.“ Héraðsdómur hafi stöðvað Vilhjálm þegar hann spurði nánar hvað fælist í þessum skýringum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert