Erum við kaldlynt borgarsamfélag?

Lögreglan á höfuðpborgarsvæðinu

„Þetta getur verið dæmi um kaldlynt afskiptaleysi gagnvart náunganum en þarf ekki að vera eina túlkunin. Skýringarnar geta verið mjög margar,“ segir Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur og prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, um þá þróun sem Neyðarlínan og lögreglan merkja hér á landi; að sífellt fleiri aðhafist ekki á vettvangi slysa og óhappa og láti einungis duga að tilkynna slysið og halda síðan för sinni áfram.

Helgi segir þetta mjög áhugavert viðfangsefni innan félagsfræðinnar og hafi verið margrannsakað, hvenær mannfólkið veitir öðrum hjálparhönd og hvenær ekki. Rannsóknir sýni almennt að fólk hafi ekki mikil afskipti af samborgurum sínum. Þegar einhver lendi í neyð sé það ekki sjálfgefið að viðkomandi fái strax nauðsynlega aðstoð. Stóra spurningin sé hvenær fólk ákveði að skerast í leikinn.

„Rannsóknir sýna að eftir því sem fleiri eru á vettvangi slyssins þá eru minni líkur á að þú hafir afskipti, þá finnst þér jafnvel alveg nóg að tilkynna atburðinn. Ef þetta er mjög nálægt þínu umhverfi eða þú jafnvel bara einn til staðar aukast líkurnar á einhverjum afskiptum,“ segir Helgi.

Óttast að grípa inn í

Hann bendir á að reglulega komi upp atvik þar sem ekið er framhjá vegfarendum í vanda. Þessi atvik hreyfi við umræðunni og margir grípi það á lofti að þetta sé dæmi um hve á Íslandi sé orðið kaldrifjað borgarsamfélag.

„Við búum vissulega í borgarsamfélagi en við búum líka í samfélagi sérhæfingar þar sem mjög öflugir aðilar eru kallaðir út til að veita fólki neyðaraðstoð. Fólk sem verður vitni að einhverju upplifir kannski vanmátt og vanþekkingu og treystir sér ekki til að grípa inn í af ótta við að gera eitthvað rangt. Hvaða afleiðingar munu mín afskipti hafa? Þessar og margar fleiri spurningar koma upp í huga fólks í svona aðstæðum. Með því að hringja í Neyðarlínuna og láta þar við sitja þá telur fólk sig þannig vera búið að rækja sínar borgaralegu skyldur og koma málinu í hendur sérhæfðra aðila. Hérna áður voru farsímar ekki til staðar og þá gastu kannski ekki komist upp með annað en að veita fyrstu hjálp,“ segir Helgi jafnframt.

Hann segir nauðsynlegt að ræða þessi mál og þekking í skyndihjálp sé góð leið til að draga úr afskiptaleysinu. Fyrstu viðbrögð skipti lykilmáli og allir geti lent í þeim aðstæðum að þurfa að koma náunganum til hjálpar.

Fleiri koma ekki til hjálpar

Helgi Gunnlaugsson
Helgi Gunnlaugsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert