Stöðutákn að vera vopnaður

Almenningur og lögregla getur lent á milli í átökum afbrotamanna …
Almenningur og lögregla getur lent á milli í átökum afbrotamanna eins og orðið hefur raunin annars staðar á Norðurlöndunum, að því er segir í svari ráðherra. mbl.is/Eggert

Síðasta áratug hafa afbrotahópar hérlendis vopnast, en á árunum 2010 til nóvember 2015 voru 100 skotvopn tilkynnt stolin og lögreglan lagði hald á alls 784 skotvopn. Lögreglan hefur orðið þess áskynja að afbrotamenn líti á það sem stöðutákn að vera vopnaðir.

Þetta kemur fram í svari Ólafar Nordal innanríkisráðherra við fyrirspurn Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, þingmanns Vinstri grænna, um skotvopnavæðingu almennra lögreglumanna.

Fyrirspurnin er í sjö liðum og í einum þeirra spyr Bjarkey, hvort áhættumat hafi farið fram vegna ákvörðunar um að koma vopnabúri fyrir í lögreglubifreiðum sem notaðar séu til almennrar löggæslu, t.d. með tilliti til þess hvort ráðstöfunin auki líkur á því að afbrotamenn vopnist.

Í svarinu segir m.a., að á síðustu árum hafi komið upp tilfelli þar sem afbrotamenn hafi beitt skotvopnum hver gegn öðrum. Þeir hafi ekki enn beitt skotvopnum gegn lögreglu í slíkum tilfellum. Þess beri þó að geta að komið hafa upp tilfelli þar sem skotið hafi verið að lögreglumönnum við störf sín.

Brotamenn vopnast fyrst og fremst gegn hver öðrum

„Margvíslegar ástæður geta verið fyrir því að afbrotamenn vopnist. Brotamenn vopnast fyrst og fremst gegn hver öðrum, ýmist til þess að verja sig eða til þess að ná völdum. Eins hefur lögregla orðið þess áskynja að afbrotamenn líti á það sem stöðutákn að vera vopnaðir. Almenningur og lögregla getur lent á milli í átökum afbrotamanna eins og orðið hefur raunin annars staðar á Norðurlöndunum,“ segir í svarinu.

„Einnig er um það að ræða að afbrotamenn nota vopn við afbrot, svo sem rán, þar sem vopnið er notað til að ógna, eða að vopn sé notað til manndráps. Í ýmsum tilvikum getur einnig komið til þess að afbrotamenn noti vopn í þeim tilgangi að verjast lögreglu en þó er slíkt ekki algilt því oftast tekst lögreglu að leysa slík mál með samningatækni. Í slíkum tilfellum skiptir öllu að lögreglumenn séu vopnaðir til þess að ná árangri með samningatækni,“ segir ennfremur í svarinu. 

Ekki verið að auka heimildir lögreglu til að vopnast

Í svari ráðherra kemur ennfremur fram, að ekki standi til að breyta því fyrirkomulagi sem verið hafi að almennir lögreglumenn séu óvopnaðir við dagleg störf né sé verið að auka heimildir lögreglu til að vopnast frá því sem nú er samkvæmt reglum um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna frá 22. febrúar 1999. Lögreglan sé  því ekki að vopnast umfram það sem verið hefur.

Bent er á, að í sérstökum tilvikum og að höfðu samráði við ríkislögreglustjóra sé heimilt að skotvopnum verði komið fyrir í læstum hirslum í lögreglubifreiðum. Byggist slíkt á mati lögreglustjóra að höfðu samráði við ríkislögreglustjóra að þörf sé á slíku, m.a. í því skyni að stytta viðbragðstíma lögreglu komi til alvarlegra vopnamála.

Þau vopn sem verða geymd í slíkum hirslum eru 9 mm skammbyssur af gerðinni Glock.

Þá segir í svarinu, að misjafnt sé hvort vopn séu að staðaldri geymd í lögreglubifreiðum. Fyrir utan bifreiðar sér­sveitar ríkislögreglustjóra séu 18 lögreglubifreiðar búnar skotvopnum í læstum vopnaskápum. Vopnaskápar séu þó í fleiri bifreiðum. Bifreiðarnar eru hjá lögreglustjórunum á Suðurnesjum, höfuð­borgar­svæðinu, Vestfjörðum, Austurlandi og Suðurlandi. Kostn­aður við nýja teg­und vopnaskápa með ísetningu er um 225 þúsund kr. á bifreið.

9 mm Glock skambyssur eru mjög öflugar.
9 mm Glock skambyssur eru mjög öflugar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert