Viðurkenni göt í bótakerfinu

Bjarni sagði mikilvægt að byggja á starfsgetumati frekar en læknisfræðilegri …
Bjarni sagði mikilvægt að byggja á starfsgetumati frekar en læknisfræðilegri örorku sem grundvelli fyrir örorkubætur. mbl.is/Eggert

Sífellt fleira fólk á vinnualdri byggir framfærslu sína á örorku en ef maður segir að fjölgun öryrkja sé vandamál er maður sakaður um að vera uppfullur af mannvonsku. Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, á fundi eldri sjálfstæðismanna í dag. Viðurkenna þarf göt sem eru til staðar í kerfinu, að hans mati.

Bjarni var spurður út í fjölgun einstaklinga á örorkubótum á hádegisfundi Sambands eldri sjálfstæðismanna í dag. Hann sagði að reglulega væru lagðar fram tölur í ríkisstjórn um árangur sem hafi náðst í að draga úr fjölgun öryrkja. Að hans mati ætti hins vegar engin hlutfallsleg fjölgun að vera á öryrkjum.

Hann væri ekki að tala um fólk með meiriháttar líkamlega örorku sem samfélagið væri stolt af að geta gripið með öflugu velferðarkerfi, heldur fólk sem rataði inn á bætur því samfélagið væri lélegt í að starfsendurhæfa það eða félagslega kerfið hefði ekki gripið inn í og aukið virkni þess.

Nefndi ráðherrann einstaklinga sem festust í grasreykingum og tölvuleikjum og svæfu fram á hádegi. Í sumum tilfellum hefðu foreldrar fjárhagslega hagsmuni af því að börn sem byggju hjá þeim næðu ekki bata. Göt væru í kerfinu sem menn yrðu að viðurkenna að væru til staðar. Það væri hvorki til góðs fyrir þá sem lenda í þessari stöðu né þá sem standa undir því að loka augunum og horfa í hina áttina.

Stærsta einstaka hagsmunamálið hvað þetta varðar sagði Bjarni vera að ná samkomulagi við Öryrkjabandalagið og aðra hagsmunaaðila um að byggja á starfsgetumati en ekki læknisfræðilegri örorku sem grundvelli örorkubóta. Lagði Bjarni áherslu á að vandinn yrði viðurkenndur og tekist yrði á við hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert