21 mánuður „feikinóg af bulli"

Gunnar Scheving Thorsteinsson segir að dómurinn hafi komið sér á …
Gunnar Scheving Thorsteinsson segir að dómurinn hafi komið sér á óvart. mbl.is/Kristinn

„Þetta eru vonbrigði, ég átti ekki von á þessu,“ segir lögreglumaðurinn Gunnar Scheving Thorsteinsson, sem var sakfelldur af Hæstarétti Íslands fyrr í dag en honum var ekki gerð refsing.

Gunnar mun halda áfram störfum sem lögreglumaður þrátt fyrir sakfellinguna. Hann var dæmdur fyrir að hafa greint vini sínum frá því á Facebook að hann hefði verið skallaður af ungum dreng við skyldustörf.

Feikinóg af þessu bulli

„Lögreglumenn hafa ítrekað játað á sig mun alvarlegri brot en þetta en Ríkissaksóknari hefur ekki séð ástæðu til að ákæra, þannig að þetta er tímamótadómur hvað það varðar,“ segir Gunnar, sem er feginn að málinu sé lokið. „Þetta er búinn að vera 21 mánuður og það er feikinóg af þessu bulli.“

Langt frá öllum fordæmum

Garðar Steinn Ólafsson, lögmaður Gunnars, segir dóminn vera mikil vonbrigði og „rosalega langt frá öllum fordæmum Ríkissaksóknara“. „Væntanlega þýðir þetta mikla breytingu á þessu réttarsviði með mjög mörgum ákærum,“ segir Garðar Steinn.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að Gunnar hafi verið sakfelldur fyrir að hafa sent tölvuskeyti til tilgreinds manns með nafni og lýsingu á 13 ára gömlum dreng sem Gunnar hafði haft afskipti af í starfi sínu sem lögreglumaður, auk upplýsinga um ástæðu afskiptanna.

Þar kom einnig fram að lögreglumenn ættu að bera þagnarskyldu um þau atvik sem þeim yrðu kunn í starfi sínu eða vegna starfsins og leynt ættu að fara vegna lögmætra almanna- eða einkahagsmuna.

Enn hægt að ákæra Sigríði Björk 

„Ríkissaksóknari hefur tekið ítrekaðar ákvarðanir um að þegar ekki liggur fyrir neinn ásetningur um að brjóta gegn þessu ákvæði þá sé ekki ákært, eins og til dæmis í tilviki Sigríðar Bjarkar [Guðjónsdóttur lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins] þegar hún veitti upplýsingar sem Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu að hefði verið lögbrot að veita. Þá var hún ekki ákærð,“ segir Garðar. „Samkvæmt þessu hefði átt að gera það og það er ennþá hægt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert