Hafa áhyggjur af stöðu grunnskóla

Réttarholtsskóli. Félag skólastjórnenda lýsir yfir áhyggjum af stöðu grunnskóla á …
Réttarholtsskóli. Félag skólastjórnenda lýsir yfir áhyggjum af stöðu grunnskóla á Íslandi. Árni Sæberg

Félag skólastjórnenda í Reykjavík hefur lýst yfir verulegum áhyggjum af fjárhagslegri stöðu grunnskólanna í borginni og skertri þjónustu við nemendur.

Í ályktun fundar skólastjóra grunnskóla Reykjavíkur sem var haldinn 7. janúar síðastliðinn segir að umtalsverður niðurskurður sem var gripið til  í kreppunni, bæði í almennum rekstri og stjórnun, hafi ekki verið bættur. Því hafi rekstur skólanna verið afar erfiður.

„Á síðustu árum hefur niðurskurður enn verið aukinn og í því sambandi má benda á niðurskurð til sérkennslu á árinu 2015, þar sem fjármagn hefur ekki fylgt launaþróun, auk niðurskurðar til annarra þátta. Sú ákvörðun borgaryfirvalda að skólar flytji nú með sér halla á rekstri ársins 2015 yfir á 2016 mun, um leið og boðaður er frekari niðurskurður, eingöngu leiða til skertrar þjónustu við nemendur í grunnskólum borgarinnar á komandi misserum," segir í ályktuninni. 

„Fjármagn til grunnskólanna í borginni hefur ekki fylgt þeirri verðlags- og launaþróun sem orðið hefur. Áhyggjur eru af því að fjármagn til reksturs grunnskóla í Reykjavík sé alls ekki í takt við lögboðið hlutverk og skyldur hans.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert