Mikil spenna í Útvarpshúsinu

Gettu betur
Gettu betur Af vef RÚV

Í kvöld fóru fram síðustu viðureignir fyrri umferðar í Gettu betur á Rás 2 og er óhætt að segja að mikil spenna hafi ríkt í Útvarpshúsinu í Reykjavík á meðan á keppni stóð - enda mikið í húfi.

Helstu úrslit kvöldsins urðu þau að lið Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu sigraði lið Menntaskólans í Kópavogi með 27 stigum gegn 15 stigum MK. Lið Fjölbrautaskólans í Breiðholti hafði betur gegn lið Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum og sigraði með 27 stigum gegn 17 stigum og lið Menntaskólans við Laugarvatn lagði lið Menntaskólans í Borgarfirði með 23 stigum gegn 9.

Sigurlið þessara viðureigna bættust í hóp þeirra sem eru komin áfram í aðra umferð ásamt liði Verzlunarskóla Íslands sem fór áfram sem stigahæsta tapliðið.

Að lokinni keppni í kvöld var dregið í viðureignir 2. umferðar sem fer fram næstkomandi mánudag og miðvikudag. Viðureignir drógust sem hér segir:

Á mánudag mun lið Menntaskólans við Hamrahlíð keppa við Flensborg, Fjölbrautarskóli Suðurnesja við Framhaldsskólann á Laugum og Fjölbrautarskóli Vesturlands á Akranesi við Menntaskólann á Ísafirði.

Á miðvikudag keppa svo Menntaskólinn á Akureyri við Verzlunarskóla Íslands, Fjölbrautaskólinn í Garðabæ við Menntaskólann að Laugarvatni, Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu við Menntaskólinn við Sund og Menntaskólinn í Reykjavík við Borgarholtsskóla.

Sigurlið 2. umferðar fara síðan áfram í sjónvarpshluta keppninnar sem hefst á Rúv 5. febrúar næstkomandi.

Spyrill í Gettu betur er Björn Bragi Arnarsson, spurningahöfundar og dómarar eru þau Bryndís Björgvinsdóttir og Steinþór Helgi Arnsteinsson, þeim til aðstoðar er Björn Teitsson. Með umsjón fer Elín Sveinsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert