Hægt gengur að útskrifa sjúklinga

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala. mbl.is/Golli

„Áfram er mikið álag á öllum deildum spítalans. Sameiginlegir stöðumatsfundir á degi hverjum eru farnir að skila árangri og við erum enn að móta verklagið í kringum þá. Þrátt fyrir að allir leggist á eitt þá gengur áfram hægt að útskrifa suma fullmeðhöndlaða sjúklinga,“ ritar Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, í vikulegum pistli sínum.

Gildir þetta einkum, að sögn Páls, um þá sem hafa fengið færni- og heilsumat og þá sem bíða endurhæfingar.

Þá bendir hann á að afar mikilvægt sé fyrir þessa einstaklinga að komast sem fyrst í viðeigandi þjónustu þar sem þörfum þeirra er mætt á fullnægjandi máta.

„Slíka þjónustu er ekki að fá á bráðadeildum Landspítala þar sem nú bíða tugir einstaklinga. Það er ekki viðunandi staða. Við myndum að lágmarki vilja geta boðið þessum hópi þjónustu á borð við þá góðu þjónustu sem við veitum þeim einstaklingum sem nú bíða hjúkrunarrýmis á biðdeild okkar á Vífilsstöðum,“ ritar Páll.

Þá vék Páll einnig að jáeindaskannanum sem Landspítali fékk að gjöf nýverið.

„Tilkoma jáeindaskanna er bylting í greiningu og meðferð vissra erfiðra sjúkdóma hér á landi. Sömuleiðis skiptir jáeindaskanninn miklu í áframhaldandi uppbyggingu rannsóknar- og vísindastarfs á Landspítala og Íslandi,“ ritar hann.

Vísar forstjórinn þar einkum til þess að 12. janúar sl. tók hann fyrstu skóflustungu að húsi fyrir jáeindaskanna sem Íslensk erfðagreining færði þjóðinni að gjöf. Verðmæti þessa er rúmar 840 milljónir króna, en byggingin mun rísa við Hringbraut.

Nálgast má forstjórapistil Páls í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert