Milljónatap á dag vegna verkfalls

Flugfélagið Ernir tapar miklum peningum á degi hverjum vegna verkfallsins.
Flugfélagið Ernir tapar miklum peningum á degi hverjum vegna verkfallsins.

Verkfall flugvirkja hjá Samgöngustofu sem hófst á mánudaginn hefur slæm áhrif á allt flug á Íslandi. Þetta segir Hörður Guðmundsson, forstjóri flugfélagsins Ernis.

Á vefsíðu sinni segir Samgöngustofa að verkfallið hafi ekki áhrif á starfsemi íslenskra flugrekenda innanlands eða utan, fyrst um sinn.

Þessu er Hörður ósammála. „Þetta hefur slæm áhrif á allt flug á Íslandi. Ef þetta verkfall verður eitthvað áfram munu falla niður flugferðir. Það er ekki satt þegar menn segja að þetta muni ekki hafa áhrif á flugrekstur,“ segir hann. 

Samgöngustofa ber ábyrgð á eftirliti með flugtengdri starfsemi á Íslandi. „Þetta er mikilvæg stofnun fyrir flugreksturinn og hún verður að virka.“

Flugfélagið Ernir er með fjórar flugvélar í áætlunarflugi innanlands. Ein þeirra er nýskráð og tilbúin til flugs en vegna verkfallsins hefur ekki verið hægt að afgreiða vélina hjá Samgöngustofu þannig að hægt sé að nota hana.

Að sögn Harðar kostar það flugfélagið í kringum þrjár milljónir á dag að geta ekki notað vélina. „Við erum með fjórar vélar og þetta er 25% af flotanum okkar sem er stopp. Við bíðum eftir þessari vél til að geta sett aðrar vélar í skoðun hjá okkur. Þetta hefur kveðjuverkandi áhrif. Ég veit að það er sama sagan með aðra flugrekstaraðila.“

Hann bætir við að hugsanlega gætu fleiri vélar flugfélagsins stöðvast á næstu dögum, fari svo að verkfallið dragist á langinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert