Vonar að vagnstjóri kæri árás

Ráðist var á vagnstjórann um tíu leytið í gærkvöldi.
Ráðist var á vagnstjórann um tíu leytið í gærkvöldi. mbl.isÁrni Sæberg

Forstjóri Strætó vonar að vagnstjóri fyrirtækisins ákveði að kæra aðila sem réðust á hann við störf í gærkvöldi. „Okkur finnst það mjög alvarlegt að menn geti ekki stundað sína vinnu í friði,“ segir Jóhannes Rúnarsson, forstjóri Strætó í samtali við mbl.is.

Að sögn Jóhannesar er vagnstjórinn lemstraður og marinn. Þá brotnuðu gleraugu hans í árásinni og föt hans voru skemmd. „Hann leitaði ekki til bráðamóttöku í gær en gerir það í dag. Vonandi kærir hann málið. Hann gerir það sjálfur, það er ekki í okkar lögsögu að kæra þetta, og ég held hann ætli að gera það,“ segir Jóhannes.

Vagnstjóranum var boðin áfallahjálp eftir árásina. „Við fylgjum þessu máli eftir og hvetjum hann til að kæra svo að málið fái rétta meðferð,“ segir Jóhannes. 

Eins og fyrr hefur komið fram á mbl.is voru það þrír unglingar sem veittust að vagnstjóranum um tíu leytið í gærkvöldi. Voru þeir handteknir en sleppt að loknum viðræðum.  

Fyrri frétt mbl.is: Unglingar veittust að vagnstjóra

Jóhannes Rúnarsson, forstjóri Strætó.
Jóhannes Rúnarsson, forstjóri Strætó.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert