„Ávinningurinn langsóttur“

Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar.
Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar. mbl.is/Styrmir Kári

„Bjarni er með fjárlagaheimildina en ekki með heimild til að staðfesta samþykktir bankans. Hvort tveggja er rétt. Þetta eru aðgreindir hlutir, þingið hefur ekki staðfest samþykktirnar og það er ekki víst að það verði gert,“ segir Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, um aðild Íslands að Innviðafjárfestingabanka Asíu. 

Sjá frétt mbl.is: Bjarni segir heimild víst liggja fyrir

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, svaraði pistli Frosta í dag þar sem hann segir heimild til skuldbindinga Íslands sem aðili að Innviðafjárfestingabanka Asíu liggi fyrir í fjárlögum. 

Frosti hefur gagnrýnt aðild Íslands að bankanum. „Fyrr en málið hefur verið rætt til þrautar og meirihluti þingmanna hefur samþykkt þetta þá er ekki hægt að veita þetta mikla umboð sem er gefið í samþykktum bankans,“ segir Frosti.

Sjá frétt mbl.is: Segir Bjarna skorta samþykki Alþingis

„Ég hef skoðað þetta mál og hef andmælt þessu bæði í fjárveitingunni og þegar þetta var kynnt í nefnd. Ég held að þetta séu 2,3 milljarðar sem bankinn getur kallað eftir. Það eru fjármunir sem ættu að fara í aðra hluti.“

Aðspurður hvort hann teldi meirihluti fyrir málinu í þingflokknum sagði Frosti:

„Það hefur hver og einn innan þingflokksins frelsi í þessu máli, það er ekki neitt í stjórnarsáttmálanum um að ráðast í innviðabankafjárfestingar hinum megin á jörðinni. Í svoleiðis málum hafa þingmenn mikið svigrúm til að hafa eigin skoðanir og eðlilegt að hleypa málinu í gegnum þingflokkinn og þingið getur svo fjallað um málið lýðræðislega. Það getur verið að ég verði undir í því.“

Frosti bætir við að málefni Innviðafjárfestingabanka Asíu tengist öðrum málum sem eru að koma fram æ oftar í heiminum. 

„Það eru yfirþjóðlegir samningar eins og TISA og annað slíkt þar sem opnað er á heimildir fjölþjóðlegra fyrirtækja. Sagt er að slíkir samningar kunni að grafa undan fullveldisrétti þjóðríkja. Þá er verið að opna fyrir alþjóðleg fyrirtæki og þennan banka, án þess að við höfum áhrif á stefnu hans, en samt erum við að veita þessu fyrirtæki heimildir umfram öll önnur eins og skattfrelsi. Þetta er sérstakt. Ég held það verði að halda öllu svona í lágmarki og aðeins ef brýn nauðsyn krefur, mér finnst þetta vera ekki brýnt verkefni að opna á þetta.“

„Ávinningurinn af þessu fyrir Ísland er gríðarlega langsóttur og við erum með fullt af nærtækari verkefnum fyrir þessa 2,3 milljarða. Við skulum byrja á þeim,“ segir Frosti að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert