Áhrif þvingana eru gríðarleg

Ragnheiður Elín Árnadóttir.
Ragnheiður Elín Árnadóttir. mbl.is/Rósa Braga

„Það er engin óeining um það - ekkert okkar er ánægt með þá stöðu sem nú er komin,“ sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í viðtali í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. 

Vísar hún í máli sínu til þeirrar stöðu sem nú er uppi í samskiptum Íslands og Rússlands vegna landtöku Rússa innan Úkraínu. Ríkisstjórnin er, að sögn ráðherrans, einhuga í sinni afstöðu til málsins.

„Við megum ekki gleyma því að við erum ekki að setja bann á fiskútflutning til Rússlands. Gleymum því aldrei að það voru rússnesk stjórnvöld sem settu það bann. Við tókum ákvörðun á sínum tíma um að fara með okkar bandamönnum í þessar þvingunaraðgerðir, sem er ekki beint gegn rússneskum almenningi, og erum þar,“ sagði Ragnheiður Elín.

Að sögn hennar er nú „alger einhugur“ innan ríkisstjórnarinnar um þessa ákvörðun.

„Áhrifin eru gríðarleg og það er eitthvað sem við þurfum að halda áfram að skoða,“ sagði hún. En samtök atvinnulífsins hafa að undanförnu hvatt stjórnvöld til þess að endurskoða þessar aðgerðir. Í yfirlýsingu frá þeim kemur meðal annars fram að viðskiptabann Evrópusambandsins og Bandaríkjanna á Rússland hafi mjög neikvæð áhrif á íslenskt atvinnulíf. Má ætla að íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi og landbúnaði verði af um 15 milljarða króna tekjum á ári vegna stuðnings stjórnvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert