Jörðin þakin kristöllum í Tungudal

Yfirborðshrím í Tungudal við Ísafjörð. Fallegir kristalar myndast, en þeir …
Yfirborðshrím í Tungudal við Ísafjörð. Fallegir kristalar myndast, en þeir eru vetrarafbrigði af sumardögg. Mynd/Sigríður Sif Gylfadóttir

Skammt frá Ísafirði má nú líta skemmtilegt veðurfyrirbæri, en 1-2 sentímetra ískristallar hafa myndast á snjóyfirborðinu. Logn og stöðugur kuldi í samblandi við talsverðan raka eru orsakir fyrir slíku fyrirbæri, en ekki þarf nema örlítinn vind svo kristallarnir falli eins og spilaborg.

Sigríður Sif Gylfadóttir, starfsmaður á Snjóflóðasetri Veðurstofunnar á Ísafirði, var á ferð í Tungudal, sem er við Skutulsfjörð,þar sem hún tók meðfylgjandi mynd. Hún segir að kristallarnir hafi við tjaldsvæðið verið einstaklega stórir, en hún telur að það skýrist af nálægð við læk og þannig aukinn raka og að við skóginn sé auka skjól. Þó hafi kristallarnir verið farnir að myndast fyrir utan gluggann hjá henni inn í bænum líka.

Yfirborðshrím er að sögn Sigríðar sambærilegt við dögg sem myndast á sumrin. Þetta gerist aðeins þegar það er logn og yfirborðið er kalt og rakt er í lofti. Þá fellur rakinn í loftinu út á yfirborðið og það fara að vaxa hrímkristalar. Þegar nógu kalt er og logn er í nokkurn tíma fær þetta fyrirbæri frið til að vaxa og verða nokkuð stórt. Segir hún að kristallarnir geti orðið margir sentímetrar að stærð ef aðstæður séu réttar. Hér á Íslandi sé það aftur á móti nokkuð óvenjulegt því hér sé reglulega vindur.

„Þetta er eins og spilaborg, þarf ekki nema að blása á þetta svo það falli,“ segir Sigríður. Hún á von á því að kristallarnir geti haldið áfram að vaxa næstu daga, en veðurspáin gerir ráð fyrir hæglátu veðri eins og í dag.

Sigríður bendir ferðafólki fjöllum á Vestfjörðum að hafa varann á sér ef þetta lag grefst undir sjó, en það er mjög veikt. Hún segir það þó ólíklegt, þar sem spáð sé rigningu á fimmtudaginn.

Tungudalur er helsta skíðasvæði Ísfirðinga á vetrum en tjaldstæði á sumrin.

Fróðleikur um yfirborðshrím á vef Veðurstofu Íslands

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert