Ráðgáta kvelur íbúa Norðlingaholts

Lyktin gerði fyrst vart við sig árið 2014.
Lyktin gerði fyrst vart við sig árið 2014. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Megn bensínlykt gerði vart við sig á heimilum margra íbúa í Norðlingaholti í gær, svo mikil að suma sveið í augun ef marka má umræðu í sérstökum Facebook-hópi hverfisins. Hafa íbúar meðal annars þurft að þola höfuðverki vegna lyktarinnar, sem plagaði þá einnig árið 2014.

Fyrri hluta þess árs varð lyktarinnar fyrst vart, þar sem hún virtist koma upp úr niðurföllum í baðherbergjum og þvottahúsum. Íbúum er ennþá hulin sú ráðgáta sem liggur á bak við lyktina. Kom heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur þó nokkrum sinnum á vettvang til rannsókna þegar ástandið var hvað verst árið 2014.

Frétt mbl.is í mars 2014: Stæk bensínlykt á heimilum fólks

„Við komumst engu nær varðandi hvað væri að valda þessu,“ segir Rósa Magnúsdóttir deildarstjóri umhverfiseftirlits hjá heilbrigðiseftirlitinu í samtali við mbl.is. „En auðvitað viljum við fylgjast áfram með þessu, fá upplýsingar og halda áfram að rannsaka þetta. En það er erfitt að henda reiður á upprunanum, lyktin finnst víða og virðist dreifast ókerfisbundið.“

Tvær tilkynningar bárust í gær um bensínlykt í hverfinu.
Tvær tilkynningar bárust í gær um bensínlykt í hverfinu. mbl.is/Brynjar Gauti

Tvær ólíkar uppsprettur?

Við fengum tvær tilkynningar í gær um megna bensínlykt en það hefur lítið upp á sig að fara á staðinn í dag þegar lyktin er farin,“ segir Guðjón Ingi Eggertsson, sérfræðingur hjá heilbrigðiseftirlitinu. „Við höfum því engin svör við þessu í dag.“

Hann segir að svokölluð lyktarmál séu almennt mjög erfið viðureignar. „Það þarf að reyna að rekja sig áfram og komast að uppsprettunni. Þannig þurfum við að koma á staðinn þegar lyktin er í hámarki en það er sjaldan sem færi gefst til þess.“

„Þegar við skoðuðum málið árið 2014 varð okkur ljóst að þetta var mjög dreift um hverfið. Við kortlögðum tilkynningarnar og okkur fannst í raun erfitt að trúa því að þær hefðu allar sömu uppsprettu. Það varð aðeins til að flækja þetta enn meira.

Lyktin ferðaðist mjög mislangt, sums staðar virtist hún vera að fara langa leið. Stöku tilfelli voru þannig talsvert langt frá flestum öðrum. Við gátum ekki fundið neina ákveðna uppsprettu þá og ekki heldur neitt sem benti á einhvern einn stað frekar en annan.“

Næstum heilt hverfi virðist undirlagt lyktinni að sögn Guðjóns.
Næstum heilt hverfi virðist undirlagt lyktinni að sögn Guðjóns. Brynjar Gauti

Eftirlitið í viðbragðsstöðu

Engar tilkynningar hafa borist eftirlitinu frá árinu 2014, þar til nú. Guðjón segir þó að af og til fái eftirlitið tilkynningar um bensínlykt úr niðurföllum víða um borgina.

„En ekki á þessum skala, þar sem næstum heilt hverfi virðist undirlagt lyktinni. Venjulega má leiða að því líkur að terpentínu hafi verið hellt niður í einu húsi og lyktin þannig borist upp um niðurföll nærliggjandi húsa.“

Í þessu tilfelli segir Guðjón að margir komi til greina sem sökudólgar. „Í raun og veru. Hver sem er getur verið að hella einhverju í lagnakerfið. Við höfum þó ekkert til að byggja á í þeim efnum.“ Hann bendir einnig á að þó lyktin sé líkt og af bensíni þá geti verið um annað efni að ræða, svo sem terpentínu eða önnur leysiefni.

Eftirlitið verður nú í viðbragðsstöðu að sögn Guðjóns, komi lyktin upp aftur. „Ef við fáum tilkynningar á sama tíma og lyktin er í loftinu þá getum við farið á staðinn. Oft erum við þá í samráði við Orkuveituna, opnum göturæsi og þefum okkur í raun bara áfram.“

Frá Olís í Norðlingaholti. Farið var yfir mengunarvarnarbúð stöðvarinnar.
Frá Olís í Norðlingaholti. Farið var yfir mengunarvarnarbúð stöðvarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Fóru yfir búnað bensínstöðvarinnar

Í samtali við mbl.is í júní árið 2014 sagði Rósa að málið hafi verið rann­sakað ítarlega. Ýms­ir mögu­leik­ar hafi þá verið kannaðir. Meðal ann­ars hvort að ólykt­in gæti stafað af ólög­legri los­un ein­hverra fyr­ir­tækja. 

„Okk­ar reynsla er sú að fólk er ekki að leika sér að því að menga. En maður veit aldrei,“ sagði Rósa og bætti því við að meðal annars hefði verið farið yfir mengunarvarnarbúnað bensínstöðvar Olís í Norðlingaholti.

„Við könnuðum hver gæti hugs­an­lega verið að stunda los­un í svo miklu magni, en við fund­um ekk­ert fyr­ir­tæki sem var lík­legt til þess. Eins finnst manni lík­legt að ná­grann­ar hefðu orðið var­ir við stór­fellda los­un.“

Frétt mbl.is í júní 2014: Aftur ólykt í Norðlingaholti

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert