Hópurinn kominn til Keflavíkur

Margir í hópnum bera íslenska fánann.
Margir í hópnum bera íslenska fánann. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Takk Ísland, þetta er frábær þjóð,“ sagði einn fjölskyldufaðirinn í hópi sýrlensku flóttamannanna við blaðamann mbl.is nú rétt í þessu. Margir bera íslenska fánann og einnig þann sýrlenska. Fólkið er þreytt eftir langt ferðalag en ánægt að vera komið á leiðarenda. 

Fyrsti hópur sýrlenska flóttafólksins sem boðin hefur verið búseta hér á landi er lentur í Keflavík. Þau eiga langt ferðalag að baki en þau flugu frá Beirút í Líbanon með millilendingu í París. Um er að ræða sex fjölskyldur, þar af þrettán fullorðna og tuttugu og tvö börn. Stærstur hluti hópsins heldur áfram til Akureyrar og lendir þar í kvöld.

mbl.is fjallar áfram um málið í dag og í kvöld í máli og myndum.

Rætt var við Lindu Rós Alfreðsdóttur, sérfræðing hjá velferðarráðuneytinu, fyrir hádegi í dag en hún er meðal þeirra sem fylgdu flóttafólkinu til landsins. Sagði hún fólkið hresst en þreytt eftir langt ferðalag en þau lögðu af stað frá Beirút í nótt.

Frétt mbl.is: Spilaði á fiðlu á flugvellinum

Fjór­ar fjöl­skyld­ur fara til Ak­ur­eyr­ar í kvöld en tvær til Kópa­vogs. Aðspurð hvort fólkið á leið norður viti af fann­ferg­inu sem bíði þeirra svar­ar Linda því ját­andi. „Þau fengu senda mynd frá Ak­ur­eyri og þeim leist bara ágæt­lega á. Ein­hver þeirra þekkja snjó frá Sýr­landi.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra voru meðal þeirra sem tóku á móti fjölskyldunum á Keflavíkurflugvelli.

Í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu er haft eftir Sigmundi  að ánægjulegt hafi verið að geta átt stund með fjölskyldunum svo stuttu eftir komu og að hann voni að þeim eigi eftir að líða vel á Íslandi. Áhersla yfirvalda verði á að hjálpa flóttamönnum að byggja upp líf í nýjum heimkynnum, aðlagast íslenskum aðstæðum og verða virkir þátttakendur í íslensku samfélagi.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Eygló Harðardóttir velferðarráðherra með hópnum.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Eygló Harðardóttir velferðarráðherra með hópnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Hópurinn er kominn til Íslands.
Hópurinn er kominn til Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Hópurinn í Leifsstöð.
Hópurinn í Leifsstöð. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Við komuna til Íslands.
Við komuna til Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert