Nöfn ekki birt vegna uppreistar æru

Innanríkisráðuneytið hefur synjað beiðni mbl.is um nöfn þeirra sem hafa …
Innanríkisráðuneytið hefur synjað beiðni mbl.is um nöfn þeirra sem hafa sótt um uppreist æru. mbl.is/Golli

Beiðni mbl.is til innanríkisráðuneytisins um nöfn allra þeirra sem hafa hlotið uppreist æru frá árinu 1995 hefur verið synjað með vísan í 9. grein upplýsingalaga frá árinu 2012.

Greinin snýst um takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna. „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á,“ segir í greininni.

Fyrir áramót fékk Atli Helgason, sem var dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir manndráp árið 2001, uppreist æru sem þýðir að hann er nú með óflekkað mannorð. Atli hefur lagt inn beiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur um að réttindasvipting hans verði felld úr gildi svo hann geti fengið málflutningsréttindi sín sem lögmaður að nýju.

Frétt mbl.is: Atli fékk uppreist æru

Frétt mbl.is: Segir mál Atla Helgasonar sérstakt

Tegundir glæpa ekki teknar saman

Hvað varðar tegundir glæpa sem voru að baki uppreist æru þá hafa þær upplýsingar ekki verið teknar saman í ráðuneytinu og hefur beiðni um þær einnig verið synjað.

„Auk þess er um mjög fáa einstaklinga að ræða og hugsanlegt er að hægt sé að rekja málin til einstakra manna og kvenna. Þó er hægt að upplýsa að um er að ræða brot á almennum hegningarlögum nr. 19/1940 sem og brot á sérrefsilögum,“ segir í svari frá ráðuneytinu.

Flestir fengu uppreist æru 1997

Frá árinu 1995 til 2012 hafa 57 sótt um uppreist æru hjá innanríkisráðuneytinu. Til þess að eiga möguleika á uppreist æru þarf að hafa tekið út refsingu sína. Sé brotið alvarlegt þurfa að hafa liðið fimm ár frá lokum afplánunar og þarf að vera fyrsta brot.

Tuttugu manns hefur verið veitt uppreist æru, 31 hefur verið synjað, ein hefur verið dregin til baka og fimm hafa verið felldar niður.

Á þessu tímabili hafa mest átta manns sótt um uppreist æru á einu ári, eða 2009. Á árunum 2000 og 2002 sótti enginn um uppreist æru.

Flestum var veitt uppreist æru árið 1997, eða fjórum manneskjum.

Á vefsíðu innanríkisráðuneytisins má finna frekari upplýsingar um uppreist æru. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert