Dyflinarreglugerðin úr sögunni?

AFP

Evrópusambandið hefur í hyggju af fella úr gildi reglur um að hælisleitendum beri að sækja um hæli í fyrsta aðildarríki Schengen-svæðisins sem þeir koma til. Þetta kemur fram í frétt viðskiptablaðsins Financial Times en reglurnar eru kjarni svonefndrar Dyflinarreglugerðar en íslensk stjórnvöld hafa gjarnan beitt þeim við meðferð hælisumsókna.

Tillaga um að fella reglurnar úr gildi verður væntanlega lögð fram í mars samkvæmt fréttinni en markmiðið með henni er að Evrópuríki í norðurhluta álfunnar taki á sig aukna ábyrgð á þeim fjölda hælisleitenda sem komi til ríkja í Suður-Evrópu eins og Ítalíu og Grikklands. Reglurnar séu ósanngjarnar og úreltar að mati framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Reiknað er með andstöðu frá ríkjum í Norður-Evrópu við tillöguna. Þar á meðal Bretlandi en samkvæmt frétt Daily Telegraph gæti málið leitt til aukins stuðnings við að Bretar gangi úr Evrópusambandinu. Bretar standa utan Schengen-svæðisins en eru engu að síður aðilar að Dyflinarreglugerðinni og hafa í krafti hennar sent fjölda hælisleitenda úr landi.

Ekki liggur fyrir samkvæmt frétt Financial Times hvað taki við verði reglurnar felldar út gildi. Það komi væntanlega í ljós í mars. Meðal annars sé rætt um varanlegt fyrirkomulag þar sem aðildarríki skipti með sér hælisleitendum sem koma til þeirra samkvæmt ákveðnum viðmiðunum. Til að mynda með tilliti til landaframleiðslu og íbúafjölda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert