Ein helsta heilbrigðisógnin í dag

Sífellt fleiri stofnar fjölónæmra baktería, sem eru ónæmar fyrir nánast …
Sífellt fleiri stofnar fjölónæmra baktería, sem eru ónæmar fyrir nánast öllum sýklalyfjum, berast hingað til lands iStockphoto

Sífellt fleiri stofnar fjölónæmra baktería, sem eru ónæmar fyrir nánast öllum sýklalyfjum, berast hingað til lands. Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlæknir sýklafræðideildar Landspítalans, hélt erindi um ónæmi baktería og sýklalyfjanotkun á Læknadögum í Hörpu í gær. Þar sagði hann að um væri að ræða raunverulega og vaxandi ógn. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, segir að verði ekkert að gert gæti ástandið í heilbrigðismálum orðið eins og það var fyrir tilkomu sýklalyfjanna og skilgreinir aukið ónæmi fyrir sýklalyfjum sem eina helstu heilbrigðisógnina sem heimurinn stendur frammi fyrir í dag.

Karl segir ónæmi fyrir sýklalyfjum talsvert minna hér en í flestum öðrum löndum. Það megi einkum skýra með tvennu. Annars vegar að hér á landi sé tiltölulega minni notkun sýklalyfja fyrir fólk en í mörgum öðrum löndum, hins vegar sé Ísland í sérflokki hvað varðar litla sýklalyfjanotkun í landbúnaði.

Að sögn Karls er um að ræða þrjár tegundir baktería; „Multiresistant“, sem eru ónæmar fyrir þremur flokkum sýklalyfja eða fleirum, „Extensively resistant“ og „Panresistant“.

„Extensively resistant“ eru ónæmar fyrir öllum þekktum sýklalyfjum nema einu eða tveimur og heitir annað þeirra Colistin. Þær eru mjög útbreiddar í Asíu, á austurströnd Bandaríkjanna, Grikklandi og Ítalíu. Vegna þessarar miklu útbreiðslu hefur notkun Colistins aukist mikið, t.d. í landbúnaði í Kína og víðar og finnst ónæmið nú í 15-20% kínverskra landbúnaðarafurða sem greindar voru og í um 1% fólki í Kína sem aldrei hefur tekið lyfið. Karl segir það vera mikið áhyggjuefni ef þetta ónæmi berist í fjölónæmu bakteríurnar á þennan hátt, því þannig verða þær ónæmar fyrir öllum sýklalyfjum. Eftir að þessar niðurstöður frá Kína voru birtar hefur sams konar ónæmi fundist í fólki og kjúklingum í Danmörku, Englandi, Hollandi og Portúgal. Í Danmörku og Englandi var um að ræða innflutt kjúklingakjöt.

Í fyrra fundust bakteríur ónæmar fyrir nánast öllum sýklalyfjum í þremur einstaklingum hér á landi.

Við erum á tánum

Gegn þeirri síðastnefndu, „Panresistant“, dugar ekkert sýklalyf. Þessar bakteríur hafa ekki greinst hér á landi. „Þær eru sem betur fer sjaldgæfar, en ef þær breiðast út áður en við finnum ný sýklalyf er voðinn vís,“ segir Karl. „Við erum á tánum til að koma í veg fyrir að þessar bakteríur berist hingað til Íslands og breiðist hér út og við skimum fyrir þeim hjá fólki sem kemur á Landspítalann og kemur frá tilteknum löndum eða hefur verið á sjúkrahúsum erlendis.“

Slíkar skimanir voru um 12.000 í fyrra, þær hafa hátt í fjórfaldast á fáum árum og skýra má það að hluta með auknum ferðalögum Íslendinga til Asíu og annarra fjarlægra slóða.

Nýtt tæki leitar að bakteríum

– Hvað gerist ef bakteríur sem þessar ná að breiðast út? „Það þýðir að horfur sjúklinga með alvarlegar sýkingar versna. Yfirleitt hefur fólk ekki hugmynd um að það beri þessar bakteríur fyrr en það fær sýkingu af einhverju tagi, en þá virka sýklalyf ekki. Þær geta þannig verið hluti af örveruflóru okkar og við vitum ekki af þeim fyrr en eða ef við sýkjumst af þeim.“

Um áramótin var tekið í gagnið nýtt tæki á spítalanum sem leitar að fjölónæmum bakteríum með því að leita að ónæmisgenunum í bakteríunum, en þannig finnast þær fyrr en með öðrum aðferðum. Karl segir þessa aðferð dýrari en þær sem áður voru notaðar og því sé það einkum notað hjá þeim sem séu í einangrun.

Í betri aðstöðu en aðrar þjóðir

Karl segir að fyrir um tveimur árum hafi Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins, ECDC, áætlað að um 400.000 sýkingar vegna ónæmra baktería kæmu upp í Evrópu árlega. Dauðsföll vegna þeirra hefðu verið um 25.000. „Á síðasta ári samþykkti WHO ályktun um að yrði ekki gripið til tafarlausra aðgerða stefndi lýðheilsa í heiminum í að við værum að komast á sama stað og fyrir heimstyrjöldina síðari þegar fólk lést úr einföldum sýkingum. Það hefur verið varað við þessu í áratug, jafnvel lengur, og stjórnvöld gætu t.d lagt sitt af mörkum með því að hvetja lyfjafyrirtækin til að þróa ný sýklalyf.“

Er þetta eitthvað sem almenningur á Íslandi þarf að hafa áhyggjur af? „Þetta virðist geta breiðst hratt út og spurningin er hvort það takist að þróa ný sýklalyf í tæka tíð. Við erum í betri aðstöðu en flest önnur lönd til að hefta útbreiðsluna; Við erum eyja, erum með eigin landbúnaðarframleiðslu og getum stjórnað innflutningi á þeim. En það er ekkert hægt að líta framhjá því að þetta er ein alvarlegasta ógn sem við stöndum frammi fyrir varðandi lýðheilsu. Ég hef stundum líkt þessu við gróðurhúsaáhrifin.“

Karl G. Kristinsson prófessor og yfirlæknir á Landspítalanum í ræðustól …
Karl G. Kristinsson prófessor og yfirlæknir á Landspítalanum í ræðustól á Læknadögum í Hörpu í gær. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert