Hafna ásökunum Árna Páls

Steinþór Pálsson bankastjóri Landsbankans.
Steinþór Pálsson bankastjóri Landsbankans. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Landsbankinn hafnar ummælum Árna Páls Árnasonar, alþingismanns og formanns Samfylkingarinnar sem hann viðhafði í fréttum RÚV í kvöld, en þar gagnrýndi hann stjórnendur bankans fyrir að hafa ekki séð verðmætin í Borgun og vildi láta rannsaka söluna. Bankinn segist hafa metið það sem svo að Borgun hafi verið á leið í áhættusöm viðskipti erlendis.

Yfirlýsingu Landsbankans, sem einnig má finna á vef bankans má lesa hér:

Landsbankinn hafnar algjörlega ummælum sem Árni Páll Árnason, alþingismaður og formaður Samfylkingarinnar, lét falla um bankann í viðtali við fréttastofu RÚV í kvöld, 20. janúar.

Landsbankinn hefur á undanförnum árum séð um sölu og verðmat á fjölda fyrirtækja. Í bankanum býr mikil reynsla og þekking á slíku starfi og bankinn nýtur mikils trausts á þessu sviði. Bankinn hefur komið að sölu á fjölda fyrirtækja á undanförnum árum með góðum árangri.

Í viðtalinu gagnrýndi Árni Páll Landsbankann fyrir að hafa ekki séð viðskiptatækifærin sem fólust í útrás Borgunar.

Þegar verið var að semja um söluna á Borgun árið 2014 fékk Landsbankinn upplýsingar um áætlanir Borgunar um að fyrirtækið ætlaði að auka umsvif sín á erlendum mörkuðum. Að mati Landsbankans voru þessi viðskipti áhættusöm og byggði þetta mat bankans m.a. á erfiðleikum við útrás íslenskra kortafyrirtækja fyrir nokkrum árum. Frá því Landsbankinn var endurreistur haustið 2008 hefur bankinn markvisst reynt að takmarka áhættu í rekstri sínum. Það hefur m.a. verið gert með sölu hlutabréfa í fyrirtækjum í óskyldum rekstri, þ.á m. í Borgun. Helsta ástæðan fyrir sölunni á Borgun og Valitor á árinu 2014 var þó þrýstingur frá samkeppnisyfirvöldum.

Landsbankinn hefur verið gagnrýndur fyrir að hafa ekki sett svipaða fyrirvara inn í samninginn við Borgun, varðandi mögulegar greiðslur í tengslum við yfirtöku Visa Inc. á Visa Europe, og gert var í samningnum vegna sölu á Valitor.

Skýringin á þessu er í stuttu máli sú að þegar Landsbankinn samdi við Borgun hafði fyrirtækið nánast eingöngu gefið út Mastercard-kort, en ekki Visa-kort. Samkvæmt þeim upplýsingum sem bankinn hefur er sú greiðsla sem Borgun á von á, vegna Visa Europe, að mestu leyti vegna umsvifa Borgunar erlendis eftir að Landsbankinn seldi hlut sinn í fyrirtækinu. Ólíkt viðskiptasamband Landsbankans við Valitor annars vegar og Borgun hins vegar gerði það að verkum að ekki var talinn grundvöllur til samninga um viðbótargreiðslu kaupverðs í tengslum við sölu Landsbankans á hlutabréfum í Borgun, enda höfðu engin Visa-viðskipti verið á milli þessara félaga. Varðandi ávinning vegna eigin Visa-kortaviðskipta Landsbankans í tengslum við kaup Visa Inc. á Visa Europe, þá eru hagsmunir bankans tryggðir í gegnum sölu Landsbankans á hlutum í Valitor til Arion banka. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert