Rassinn er ekki hættulegur

Frá Ísafirði
Frá Ísafirði mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Opið bréf vegna baðfatasturlunar“ er yfirskrift opins bréfs sem 10 Vestfirðingar skrifuðu til bæjaryfirvalda í Ísafirði og nágrannabyggðum. Bréfið birtist á vefnum bb.is en baðfatasturlunin sem fyrirsögnin vísar í er sú að sundlaugargestir í Sundhöll Ísafjarðar eru skikkaðir til að vera í sundfötum í finnsku gufubaði laugarinnar, sem er þó kynjaskipt.

Í hópnum eru sjö Finnar og er víst ekki nema von að þeim misbjóði þessi regla. Skrifar hópurinn að það sé mælikvarði á menningarstig þjóða hversu mikla rækt og virðingu þær leggja við menningu annarra þjóða en samkvæmt skrifum þeirra er finnska sánan hreint ekki eins finnsk og hún ætti að vera.

„Látum liggja á milli hluta hversu sturlað samband manns þarf að vera við eigin nekt og nekt samborgara sinna til þess að hann láti bjóða sér sánur í fullum herklæðum; og látum einnig liggja á milli hluta að í næsta baðklefa við sánuna – hjá hinu svonefnda „sturtubaði“ – hangir skilti þar sem fólki er skilmerkilega og skiljanlega bent á að klæða sig ÚR sundfötunum; og látum meira að segja liggja á milli hluta hversu gróf móðgun þetta er við hið menningarlega og félagslega rými sánunnar – sem er sambærileg við að Finnum yrði skipað að sprauta tómatsósu út á þorrabakkann,“ segir í bréfinu.

„Samkvæmt öllum rannsóknum þar að lútandi er gríðarmikill sóðaskapur fylgjandi skítugum, klórböðuðum sundfötum – sem sjúga í sig bakteríur, safna óhreinindum og fóstra vel, þar til að í hitann er komið og viðbjóðurinn uppleysist og vanhelgar löylyna, vit manna, líkama þeirra og sálir, svo þeir fara krankir og hugsjúkir aftur út í veröldina, en ekki tápgóðir og upplitsdjarfir einsog stefnt var til.

Segir hópurinn að víðast hvar í hinum siðmenntaða heimmi sé „lagt blátt bann við því að sundföt séu dregin með inn í helgidóminn.“ Þá séu áhöld um hvort hreinlegra sé að sitja á tandurhreinu handklæði eða á rassinum sem sé ekki nærri eins hættulegur og margir halda, sérstaklega þegar komið sé beint úr sturtunni.

Skorar hópurinn því á bæjaryfirvöld „í nafni menningar, hreinlætis, samfélags og helgidóms“ að sjá til þess að skiltið þar sem sundfata er krafist verði fjarlægt hið fyrsta og þess í stað komi annað þar sem baðgestir eru beðnir allra um að skilja klæðnað sinn eftir frammi, áður en gengið er inn í hitann.

„Á þann hátt verður betur staðinn vörður um hinn mikilfenglega og dulmagnaða kraft löylynnar, og sánunni ekki spillt, því líkt og segir í máltækinu: „Jos ei viina, terva ja sauna auta, niin tauti on kuolemaksi“. Ef það læknast hvorki með víni, tjöru né sánu, þá er það áreiðanlega banvænt.“

Bréfið í heild sinni má lesa hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert