Sprenging í kvörtunum vegna viðskipta

Margar kvartana erlendu ferðamannanna varða bílaleigur. Myndin er úr safni …
Margar kvartana erlendu ferðamannanna varða bílaleigur. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Rax / Ragnar Axelsson

Erindum sem send eru til Evrópsku neytendaaðstoðarinnar (ECC) fjölgaði um 65% hér á landi í fyrra samkvæmt ársskýrslu hennar. Flest deilumálin sem komu á borð ECC voru vegna erlendra ferðamanna sem lentu í vandræðum með viðskipti við íslenska seljendur, aðallega bílaleigur og flugfélög. Algengast er að ferðamennirnir sem leita til ECC á Íslandi séu Bretar eða Frakkar.

ECC-netið aðstoðar neytendur sem lenda í vandræðum vegna viðskipta við seljendur frá öðrum löndum innan evrópska efnahagssvæðisins. ECC á Íslandi bárust 175 erindi á árinu 2015, sem er 65% aukning miðað við fyrra ár, að því er kemur fram í tilkynningu frá Neytendasamtökunum.

Þá sinnti ECC á Íslandi milligöngu í 63 kvörtunarmálum á árinu, sem er einnig nýtt met. Oftast var um að ræða kvartanir erlendra ferðamanna vegna íslenskra seljenda en einnig er nokkuð um að Íslendingar leiti til ECC vegna vandamála í samskiptum við erlenda seljendur, t.a.m. þegar verslað er gegnum internetið. 

Rukkaði ferðamann fyrir tjón á bílaleigubíl sem hann olli ekki

Nokkur dæmi eru tekin um mál sem komu inn á borð ECC í ársskýrslunni. Þannig segir af spænskum ferðamanni sem kom hingað til lands en ferðataska hans skilaði sér aldrei. Óskaði hann eftir því við flugfélagið að fá innihald hennar bætt. Hann hafði síðan samband við ECC á Spáni sem sendi það til skrifstofunnar á Íslandi. Tveimur dögum eftir að ECC á Íslandi hafði samband við flugfélagið samþykkti það að greiða ferðamanninum 155 þúsund krónur í bætur.

Þar segir einnig af tékkenskum ferðamanni sem varð fyrir því að sprunga kom í framrúðu í bílaleigubíl hans þegar steinn skaust í hana úr jeppa sem ók fyrir framan hann síðasta sumar. Þrátt fyrir að eigandi jeppans hafi stoppað, viðurkennt sök sína og skrifað undir tjónaskýrslu rukkaði bílaleigan ferðamanninn um 572 evrur vegna tjónsins.

Eftir inngrip ECC í Tékklandi og hér á landi endurgreiddi bílaleigan manninum upphæðina og baðst afsökunar á mistökum sínum.

Frétt á vef Neytendasamtakanna um ársskýrslu ECC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert