Tókust á um stöðu hjúkrunarheimila

Katrín Jakobsdóttir, þingmaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, þingmaður Vinstri grænna. mbl.is/Styrmir Kári

„Ég vil gera að umtalsefni þann brýna vanda sem hjúkrunarheimili standa í um þessar mundir. Okkur hafa borist fréttir af að þar ríki mjög slæmt ástand,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, þingmaður Vinstri grænna. Sagði hún að stjórnendur hjúkrunarheimila áætli að það vanti tvo milljarða í málaflokkinn til viðbótar á þessu ári og benti á að hjúkrunarheimilli séu á ábyrgð ríkisins þó ýmis sveitarfélög eða sjálfseignarstofnanir reki heimili.

Sagði hún mikilvægt að taka málið til umræðu jafnvel þó að ráðherra muni funda um málið á næstunni. Vildi hún vita hvort einhverjar áætlanir séu um að hækka daggjöld fyrir hvern heimilismann og sagði að skýrar leiðbeiningar þurfi að koma frá stjórnvöldum um hvað eigi að skerða. „Eðlilega spyrja þeir aðilar sem reka heimilin hvaða þjónustu eigi að skerða,“ sagði Katrín. Sagði hún að einnig hefði verið minnst á að það þyrfti að ræða hvort auka þurfi greiðsluþátttöku íbúa og vildi hún að upplýst yrði um hvort það verði gert.

Sagði hún einnig að skoða þurfi lífeyrisskuldbindingar hjúkrunarheimila og spurði hvort til standi að aflétta lífeyrisskuldbindingum á fleiri hjúkrunarheimilum. Þá sagði hún að hjúkrunarheimilin hafi gríðarlega mikilvægu hlutverki að gegna. Heimilismenn séu oft orðnir mjög veikir þegar þeir loksins fá pláss og þurfi því oft á mikilli þjónustu að halda.

Aðstæður heimilanna mjög mismunandi

„Í fyrsta lagi vil ég taka það fram að á árinu 2014 gerði ríkið, fjármála- og efnahagsráðuneytið og ellefu hjúkrunarheimili, samkomulag um uppgjör lífeyrisskuldbindinga til að koma til móts við erfiða stöðu hjúkrunarheimila. Þarna var um að ræða afléttingu lífeyrisskuldbindinga að andvirði sex milljarða króna.

Til viðbótar þessu kom framlag á árinu 2014, upp á sjö til áttahundruð milljónir, til jafnlaunaátaks. Það kom verulegur bati þar inn. Hins vegar eru lífeyrisskuldbinindgar við sveitarfélögin vegna rekstrar hjúkrunarheimila óuppgerðar. Ég innti fjármála- og efnahagsráðuneytið eftir því í dag og fékk þau svör að þar hefði ekki unnist tími til að meta stöðu þeirra lífeyrisskuldbindinga sem þar undir falla,“ sagði Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra. 

„Ég vil undirstrika það að sjálfeignarstofnarnir í eigu einkaaðila eru hluti af Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónstu og þar er sambland þeirra og sveitarfélaga í þessum ágætu samtökum. Heilbrigðismálin og rekstur kerfanna eru með stærstu og viðamestu verkefnum hins opinbera á Vesturlöndum og það eru ýmsir þættir sem valda stöðugum þrýstingi á útgjaldaaukningu þar,“ sagði Kristján.

„Ég vil leyfa mér að fullyrða að stjórnvöld hafi á síðustu árum unnið að því að styrkja þennan málaflokk hér,“ sagði Kristján og nefndi ýmis atriði í því samhengi. „Til viðbótar þessu vil ég leggja áherslu á það  að það eru inni auknar fjárheimildir til styrktar heilsugæslunni, heimahjúkrun ... en að sjálfsögðu ... eiga sum hjúkrunarheimilin í rekstrarerfiðleikum,“ sagði Kristján og sagði hann fulla ástæðu að fara yfir þá stöðu.

Sagðist hann vilja undirstrika aðstæður heimilanna séu mjög mismunandi og sömuleiðis ríkisins til að mæta vandanum. Skiljanlega séu skiptar skoðanir um hvaða leiðir eigi að fara en allt er til skoðunar í þeim efnum að sögn Kristjáns. „Ég vil nefna það að það sem setur okkur þak í samningaviðræðum við heimilin eru fjárveitingar sem ákveðnar eru af Alþingi,“ sagði Kristján.

Hjúkrunarheimili sitji við sama borð

„Ég þykist greina af þessari umræðu að það er ríkur pólitískur vilji til að bæta úr þeirri stöðu, þvert á alla flokka, sem upp er komin. Við megum samt ekki rugla saman langtímastefnu sem vissulega er mikilvægt að gera og þarf að byggjast upp á ólíkum þáttum heimahjúkrunar, hvíldarinnlagna og svo rekstri hefðbundinna hjúkrunarheimila. Það er eðlileg stefnumótun sem þarf að fara fram, hvernig við sjáum vægi þessara þátta fyrir okkur í framtíðinni,“ sagði Katrín.  

„Síðan verkefnin sem eru brýn, þar vitna ég til lífeyrisskuldbindinga, það kom fram í máli hæstvirts ráðherra, hvað varðar lífeyrisskuldbindingar þeirra hjúkrunarheimila sem eru rekin af sveitarfélögum, það er ekki farið að ráðast í þau verkefni. Þar brýni ég ríkisstjórnina og hæstvirtan fjármálaráðherra, samstarfsmann hæstvirts heilbrigðisráðherra, að ráðast í það verkefni. Það er líka mikilvægt að hjúkrunarheimili sitji við sama borð, óháð því hver rekstraraðilinn er þegar við erum að horfa á þennan þátt sem hefur auðvitað áhrif á rekstur þessara heimila.“

Bráðaverkefnið sagði Katrín að leysa úr fjárframlögum heimilanna, daggjöldunum fyrir hvern heimilismann, sem gera þurfi samkomulag um. Benti hún á að Kristján hefði sagt að ræða þyrfti inntak þjónustunnar sem væri verið að veita á heimilinum. „Ég legg á það mikla áherslu hér að ég vil að minnsta kosti ekki sjá þá þjónustu skerta en auðvitað þarf að leggja fyrir ef það er ætlunin að skerða þjónustuna, þá þurfa auðvitað að koma fram skýr svör um hvaða þjónustu þarf að skerða,“ sagði Katrín. „Ég átta mig líka á því að verkefnið er umfangsmikið og kostnaðarsamt.“

Vantar stefnumörkun til lengri tíma

Kristján sagðist fagna því hvernig Katrín nálgist umræðuna en sumir hefðu aftur á móti komið „upp með palladóma og yfirlýsingar sem greiða ekkert úr þeirri stöðu sem við er að glíma.“ Sagðist hann vilja minna á það að það væri aðeins rétt rúmur mánuður frá því að Alþingi samþykkti fjárlagafrumvarpið en þar hefði engin tillaga komið fram um aukin framlög til málaflokksins.

„Höfuðvandinn í þessu er sá að það vantar stefnumörkun til lengri tíma. Það er hárrétt sem kom fram hér hjá háttvirtum þingmanni Helga Hrafni Gunnarssyni áðan, okkur skortir lengri tíma sýn. Að henni er unnið,“ sagði Kristján.

„Varðandi bráðavandann og það að rekstraraðilar sitji við sama borð. Þá er vandamálið, viðfangsefni, jafn fjölbreytt og þeir eru margir. Þeir eru fjörtíu og fjórir rekstraraðilar hjúkrunarheimila, samkvæmt skýrslu ríkisendurskoðanda voru þrettán þeirra rekin með afgangi árið 2014. Ég veit að sumir rekstraraðilar eru að glíma við ágæta stöðu, það er að segja þeim gengur ágætla að vinna úr því sem þeir eru að fá en aðrir eru í bullandi vandræðum. En þeir sem eru í vandræðum eru jafnvel að yfirborga starfsfólk á milli heimila,“ sagði Kristján.

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra.
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra. mbl.is/Ómar
Hjúkrunarheimilið Mörk.
Hjúkrunarheimilið Mörk. mbl.is/Ómar Óskarsson
Hjúkrunarheimilið Eir.
Hjúkrunarheimilið Eir. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert