Verkefnið hafið og innan seilingar

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Ómar

„Vilji þingsins liggur fyrir. Þetta stóra verkefni er komið á framkvæmdastig og ég held ég geti fullyrt það að flestir sem tengjast umræðunni um heilbrigðismál velkjist ekkert í vafa um það hversu mikið við þurfum á því að halda að taka til hendinni í þessum efnum. Við þurfum að byggja upp öflugan spítala til þess að takast á við áskoranir samtímans en ekki síður framtíðarinnar. Þetta mál að minni hyggju þolir ekki lengri bið.“

Þetta sagði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra á fundi Félags atvinnurekenda í morgun þar sem rætt var um nýjan Landspítala. „Ég held að allir sem fylgjast með fréttum og umræðum um aðstæður á Landspítalanum í lengri og skemmri tíma, svo ég tali ekki um þá sem þurfa að sækja þangað þjónustu fyrir sig eða sína, átti sig á því að hvorki húsnæðið né ýmislegt í aðstæðum á sjúkrahúsinu samræmist nútímakröfur. Við erum að bjóða þar upp á og reyna að nýta sundurleitan húskost. Hann er að hluta til mikið dreifður um borgina, sjúklingar eru jafnan fleiri en einn og fleiri en tveir á stofu sem núorðið þykir vart boðlegt.“

Frétt mbl.is: „Fjármögnunin er ekkert vandamál“

Húsnæðið væri auk þess víða orðið lélegt og dýrt í viðhaldi. Kristján lagði áherslu á að skyldur hans sem heilbrigðisráðherra væru fyrst og fremst við sjúklinga og snerust um að tryggja þeim aðgang að þeirri þjónustu sem þeir þyrftu á að halda. Jafnframt þyrfti að tryggja að sú þjónustu stæðist kröfur um öryggi og gæði. Til þess þyrfti margt að haldast í hendur. Endurbygging þjóðarsjúkrahúsisns væri þar í algerum forgangi. Ófullnægjandi aðbúnaður fyrir sjúklinga væri að sama skapi ófullnægjandi aðbúnaður fyrir heilbrigðisstarfsfólk.

„Ef við ætlum að tryggja mönnun sjúkrahússins með mjög vel hæfu starfsfólki er húsakostur og tækjakostur mjög mikilvægur þáttur í því. Ég er þeirrar skoðunar að ef við ætlum og viljum standast algerlega samkeppni um starfskrafta heilbrigðisstarfsfólks þá verðum við að eiga hér og búa þannig um hnútana að við eigum háskólasjúkrahús sem stendur undir nafni og getur tengt saman rannsóknir, vísindi og praktík,“ sagði ráðherrann ennfremur. Enn væri þó spurt hvers vegna að fara í uppbyggingu við Hringbraut frekar en annars staðar.

Kristján lagði áherslu fyrir það fyrsta á að Alþingi hefði gefið þau fyrirmæli að uppbygging nýs Landspítala yrði við Hringbraut. Hann myndi sem heilbrigðisráðherra ekki hvika frá því. Benti hann á að 2/3 bráðastarfseminnar væri við Hringbraut, hægt væri nýta ýmis mannvirki sem fyrir væru, hægt væri að byggja upp í áföngum, byggingakostnaðurinn væri lægstur með því að fara þá leið, nálægð við Háskóla Íslands og frekari uppbyggingu heilbrigðisvísindasvið sem væri í burðarliðunum og lægi ennfremur vel við almenningssamgöngum.

Ráðherrann lauk erindi sínu á þessum orðum: „Við hljótum að geta sameinast um það að byggja upp þjóðarsjúkrahús, sem við þörfnumst, viljum sjá, með sterka innviði, fagfólki í fremstu röð, vel tækjum búið og í húsnæði sem samræmist kröfum samtímans. Þetta er verkefnið, það er hafið og innan seilingar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert