400 krónur urðu að 86 milljónum

„Vonandi gerist eitthvað í því í dag,“ segir Stefán Konráðsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar getspár, í samtali við mbl.is spurður hvort komið sé í ljós hver hafi unnið 86,3 milljónir króna í Víkingalottóinu í gær. Vinningsmiðinn var keyptur í Samkaup Úrvali á Selfossi. Þrír voru með allar tölurnar réttar en hinir tveir vinningsmiðarnir voru keyptir í Noregi.

„Þetta er auðvitað frábær fjárfesting hjá vinningshafanum. Hann keypti fimm raða seðil á 400 krónur sem verður síðan 86 milljónir. Það er nokkuð gott,“ segir Stefán. Vinningstölurnar hafi komið á síðustu röðina á miðanum. „Ég vona bara að vinningshafinn láti sjá sig. Það hlýtur að gerast.“ Þetta er þó ekki stærsti vinningurinn í Víkingalottóinu sem komið hefur á miða hér á landi þó hár sé. Samtals hafa 25 vinningar komið hingað til lands.

Mikið álag var á veg Íslenskrar getspár í gær eftir að greint var frá því í fjölmiðlum að 86 milljónir hefðu komið á miða hér á landi. „Vefurinn lagðist eiginlega bara á hliðina. Um leið og fjallað var um þetta í fréttum þá hægðist á vefnum. Það var svakalegt álag en það lagaðist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert