Deilt um erlent eignarhald

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég tel að það sé ekki æskilegt til lengri tíma litið að ríkið eigi jafn stóran hlut í fjármálakerfinu og nú er uppi. Það er bæði óeðlilegt að ríkið eigi mikið undir áhættusamri starfsemi og að sama skapi skekkir það verulega samkeppni á fjármálamarkaði ef ríkið ber höfuð og herðar yfir aðra aðila,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í sérstakri umræðu á Alþingi í dag um sölu bankanna. Málshefjandi umræðunnar var Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.

Árni Páll spurði hvað lægi á að selja eignarhluti ríkisins í bönkum. Gjaldeyrishöft væru enn við líði og engar líkur væru á því að innlendir fjárfestar hefðu ráð á því að kaupa bankana af eigin rammleik. Fyrir vikið væri sú hætta fyrir hendi að keypt yrði á annarlegum forsendum. Bankarnir yrðu keyptir fyrir yfirverð með það fyrir augum að komast í þá aðstöðu ná út úr almenningi og fyrirtækjum á Íslandi kaupverðið næstu áratugina á eftir. Sagði hann telja eðlilegt að ríkið hefði lykilstöðu í Landsbankanum til framtíðar. Ætti ekki endilega meirihluta. Eignarhald annarra banka væri fjölbreytt. Lífeyrissjóðir kæmu að einum banka og erlendir fjárfestar öðrum.

Fjármálaráðherra sagðist telja ákjósanlegt að ríkið ætti til framtíðar umtalsverðan hlut í einum banka. Þó ekki meirihluta. Bankarnir og fjármálakerfið ætti að öðru leyti að vera í höndum einkaaðila. Sagðist hann sammála Árna Páli í þeim efnum og einnig í því að erlent eignarhald á einum bankanum væri æskilegt. Það væri hins vegar eitthvað sem hefði aldrei tekist á Íslandi. Varðandi spurninguna um hvað lægi á sagði Bjarni að það skipti máli að koma eignum í verð til þess að greiða niður skuldir ríkisins og lækka vaxtakostnað þess sem væri meiri en vaxtakostnaður gríska ríksins vegna hás vaxtastigs. Vísað hann til Bankasýslu ríkisins að rétt skilyrði væru fyrir hendi um þessar mundir varðandi sölu á hluta af eign ríkisins í Landsbankanum.

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, sagðist ekki telja réttan tíma til þess að selja hluta af eignarhlut ríkisins í Landsbankanum. Mat á bönkum í Evrópu væri enn lágt. Ekki væri ásættanlegt að bankinn væri seldur á tombóluverði. Sagði hann það ekki þjóna hagsmunum þjóðarinnar að erlendir aðilar eiguðust stóran hlut í íslenska bankakerfinu sem væri ávísun á mikið streymi gjaldeyris úr landi sem myndi til lengri tíma grafa undan lífskjörum í landinu. Frosti sagðist telja að hagsmunum ríkissjóðs væri best borgið með því að eiga áfram eignarhlutinn í Landsbankanum og njóta arðs af honum.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Styrmir Kári
Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar.
Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert