Meirihluti trúir á miðilsgáfur

Úr draugasetrinu á Stokkseyri.
Úr draugasetrinu á Stokkseyri. mbl.is/Ómar Óskarsson

Meirihluti Íslendinga trúir því að til sé fólk sem hefur skyggni- eða miðilsgáfur. Þetta eru niðurstöður nýlegrar könnunar MMR þar sem 53,7% svarenda sögðust trúa á slíka yfirnáttúrulega hæfileika auk þess sem tæpur þriðjungur eða 31,9% sögðust hafa farið á miðilsfund. Svarendur voru 967 einstaklingar, 18 ára og eldri.

Nokkur munur var á svörum fólks þegar tekið var tillit til kyns, aldurs, búsetu og stuðnings við stjórnmálaflokka.

„Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 69% kvenna trúa á slíkar gáfur borið saman við 40% karla. Þá kvaðst 70% fólks á aldrinum 68 ára og eldri trúa að til sé fólk með skyggni- eða miðilsgáfur borið saman 41% fólks undir þrítugu,“ segir í samantekt MMR.

 „Íbúar á landsbyggðinni sögðust frekar trúa á fólk með skyggni- eða miðilsgáfur (67%) en íbúar á höfuðborgarsvæðinu (46%). Þá reyndust þeir sem sögðust styðja Framsóknarflokkinn frekar trúa á fólk með skyggni-eða miðilsgáfur en stuðningsfólk annarra flokka. Af þeim sem tóku afstöðu og studdu Framsóknarflokkinn sögðust 77%  trúa á fólk með skyggni-eða miðilsgáfu, borið saman við 42% Sjálfstæðismanna og 40% Pírata.“

44% kvenna hafa farið á miðilsfund

Fleiri konur reyndust hafa sótt miðilsfundi en karlar en af þeim sem tóku afstöðu sögðust 44% kvenna hafa farið á miðilsfundi samanborið við 19% karla.

„Af þeim sem tóku afstöðu og voru 68 ára og eldri voru 49% sem sögðust hafa farið á miðilsfund samanborið við 38% svarenda á aldrinum 50-67 ára og 17% þeirra á aldrinum 18-29 ára. Af þeim sem tóku afstöðu og sögðust styðja Framsóknarflokkinn voru 39% sem sögðust hafa farið á miðilsfund samanborið við 20% stuðningsmanna Bjartrar framtíðar. Þá má að lokum sjá að af þeim sem trúa á til sé fólk með skyggni- eða miðilsgáfur voru 47% sem sögðust hafa sótt miðilsfundi samanborið við 14% þeirra sem ekki sögðust trúa á slíka hæfileika.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert