Skilorðsbundið fangelsi fyrir árás á sambýliskonu

Maðurinn var dæmdur fyrir árás á þáverandi sambýliskonu sína á …
Maðurinn var dæmdur fyrir árás á þáverandi sambýliskonu sína á heimili þeirra. mbl.is/G.Rúnar

Hæstiréttur dæmdi karlmann í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða hálfa milljóna króna í miskabætur vegna líkamsárásar á fyrrverandi sambýliskonu sína. Maðurinn barði hana meðal annars í andlitið, sparkaði í hana og hrinti þannig að hún rifbeinsbrotnaði og hlaut önnur meiðsli.

Í dómnum kemur fram að í september árið 2013 hafi maðurinn slegið konuna hnefahöggi í andlitið, hent henni utan í svefnherbergisskáp, hrint henni svo hún féll og lenti með öxlina á kommóðu, tekið í hendi hennar og sparkað, íklæddur skóm, í læri, kálfa og síðu hennar, tekið hana hálstaki með báðum höndum og ýtt á bringu hennar þannig að hún féll aftur fyrir sig og lenti á glerborði, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut rifbeinsbrot, sár og mar á olnboga og mar á öxl, læri og hné.

Hann var sakfelldur fyrir brotin í Héraðsdómi Reykjaness fyrir utan að ekki taldist sannað að hann hefði tekið konuna hálstaki. Var hann dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi og til þess að greiða konunni hálfa milljón króna í bætur.

Ríkissaksóknari áfrýjaði málinu og krafðist þyngri refsingar en Hæstiréttur staðfesti dóminn. Maðurinn þarf til viðbótar að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins sem nemur rúmum 658 þúsund krónum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert