Þjóðminjasafnið fær 4.000 fermetra

Börn skoða muni á Þjóðminjasafninu.
Börn skoða muni á Þjóðminjasafninu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Á morgun verður samningur um varðveislu- og rannsóknasetur Þjóðminjasafns Íslands undirritaður.

Samningurinn markar mikilvæg þáttaskil í þjóðminjavörslu á Íslandi en húsnæðið, að Tjarnarvöllum í Hafnarfirði, er 4.270  m² að stærð og fyrirhugað er að Þjóðminjasafnið taki það í notkun um mitt ár 2016. Hönnuður húsnæðis er ArkÞing en það er í eigu fasteignafélagsins Regins.

Samkvæmt fréttatilkynningu frá Þjóðminjasafninu verða kjöraðstæður í setrinu til varðveislu þjóðminja og vel búin starfsaðstaða til rannsókna, forvörslu, sýningaundirbúnings og kennslu.

„Í húsinu verða öryggisgeymslur fyrir stóran hluta safnkosts Þjóðminjasafns og starfsaðstaða fyrir starfsmenn, sérfræðinga, fræðimenn og nemendur. Fullkomin hita- og rakastýring verður í öryggisgeymslum svo tryggja megi varðveislu viðkvæms safnkosts. Í húsnæðinu verða einnig rannsóknarstofur, forvörsluverkstæði, aðstaða til sérhæfðrar varðveislu og rannsókna jarðfundinna gripa og aðstaða til undirbúnings sýninga. Hluti safnkostsins verður áfram varðveittur í húsnæði safnsins í Kópavogi, þar sem Ljósmyndasafn Íslands í Þjóðminjasafni verður áfram til húsa,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert