Blautt og hvasst um helgina

Von er á rigningu og roki um helgina.
Von er á rigningu og roki um helgina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Von er á leiðindaveðri um helgina þar sem úrkoma og hvassvirði eru í aðalhlutverki. Á morgun er von á allhvassri suðvestan átt á Suðurlandi og að Norðvesturlandi. Þurrt en hvasst verður á Norðausturlandi og Austurlandi.

Teitur Arason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir að suðvestan áttin verði allhvöss og er von á slæmum vindstrengjum.

„Með þessu kemur úrkoma á láglendi en krapi á heiðum og fjallvegum“ segir Teitur.

Hann segir jafnframt að hiti muni lækka tímabundið á morgun en búið er að vera hlýtt í dag miðað við árstíma.

„Svo kemur önnur mild rigningaausa á sunnudaginn,“ segir Teitur. „Þá verður suðaustan átt og hitinn hækkar aðeins og verður hiti 3 til 8 stig um allt land og rigning sem verður einkum bundin við sunnanvert landið.“

Rétt eins og á morgun er gert ráð fyrir hvassvirðir á sunnudaginn. Segir Teitur að líklega verði strekkingur eða allhvass vindur. 

Á mánudaginn fer veður aftur kólnandi. „Þá snýst hann í kalda suðvestan átt og verður þannig þriðjudag og miðvikudag með éljagangi,“ segir Teitur og bætir við að það sé nóg eftir af vetrinum þrátt fyrir rauðar tölur í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert