Veit af áhyggjufullum krökkum

Flensborgarskóli í Hafnarfirði
Flensborgarskóli í Hafnarfirði mbl.is/Eggert Jóhannesson

Albanskri stúlku sem tilheyrir fjölskyldu sem var hafnað um hæli hér á landi hefur vegnað vel í námi við Flensborgarskóla í Hafnarfirði og er orðin ótrúlega mælt á íslensku, að sögn Magnúsar Þorkelssonar, skólameistara. Hann segist vita af mörgum nemendum sem séu áhyggjufullir vegna brottvísunar stúlkunnar.

Fjölskyldan fékk brottvísun frá Útlendingastofnun á miðvikudag. Samkvæmt heimildum mbl.is er hún nú komin með lögfræðing og hefur kært ákvörðun stofnunarinnar. Fjölskyldumeðlimirnir eru fimm en auk stúlkunnar, sem er nýorðin átján ára, og foreldra hennar eru bræður hennar tveir, tíu og 21 árs gamlir.

„Hún fellur afskaplega vel í hópinn og er orðin ótrúlega mælt á íslensku. Hún kom á miðri haustönninni og lauk nokkrum áföngum eins og hún hefði verið heila önn með láði. Hún er bara með tíu í öllum prófum sem hún tekur og verkefnum. Hún sýnir afburða námsgetu,“ segir Magnús um albönsku stúlkuna.

Skólameistarinn segist ekki vita hversu meðvitaður nemendahópurinn sé um hvað sé að gerast í málum stúlkunnar en hann viti þó um fullt af nemendum sem séu áhyggjufullir vegna stöðu hennar. Stúlkan er fyrsti hælisleitandinn sem leggur stund á nám við skólann.

„Þetta hefur kannski meiri áhrif á okkur sem erum að vinna með henni vegna þess að við vitum meira um hvað þetta snýst,“ segir Magnús.

Fyrri frétt mbl.is: Veitir ekki af að fá fólk til landsins

Magnús Þorkelsson, skólameistari Flensborgarskólans.
Magnús Þorkelsson, skólameistari Flensborgarskólans. Ásdís Ásgeirsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert