Björguðu 150 þúsund mannslífum

Hugo Brady, ráðgjafi Donald Tusk forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins
Hugo Brady, ráðgjafi Donald Tusk forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins Háskóli Íslands/Kristinn Ingvarsson

Hugo Brady, ráðgjafi Donald Tusk forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins, segir að það sé ekki hægt að halda því fram að ESB hafi ekki gert neitt til þess að bregðast við flóttamannastraumnum. Á síðasta ári hafi 150 þúsund mannslífum verið bjargað og tekið á móti yfir 1,1 milljón flóttamanna.

Það sé aftur á móti nauðsynlegt að samkomulag sem Evrópusambandið hefur gert við Tyrki fari af stað innan þriggja vikna en það miðar að því að veita Tyrkjum fjárhagslega aðstoð, þrjá milljarða evra, til að stuðnings flóttafólki gegn því að flóttamennirnir fari ekki yfir landamæri Tyrklands til ríkja ESB.

AFP

Stjórnin ræður yfir 16% landsins en um 60% Sýrlendinga búa á svæðinu

Brady ræddi viðbrögð ríkja Evrópu við flóttamannastraumnum til álfunnar og líklega þróun mála árið 2016 á fundi Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands í gær.

Sýrland bar mjög á góma í erindi Bradys enda stærsti hópurinn sem flúði til Evrópu á síðasta ári. Hann segir að ríkistjórn Bashar al-Assad ráði yfir 16% af landsvæði Sýrlands en á því svæði séu um 60% íbúa landsins. Af  22 milljónum Sýrlendinga séu yfir fjórar milljónir með stöðu flóttafólks og 6,5 milljónir eru á vergangi í heimalandinu. Talið er að 13,5 milljónir þeirra Sýrlendinga sem enn eru í heimalandinu þurfi á neyðaraðstoð að halda.

Beðið eftir lest í Presevo í Serbíu í vikunni.
Beðið eftir lest í Presevo í Serbíu í vikunni. AFP

Að sögn Brady eru 2,2 milljónir Sýrlendinga í Tyrklandi og ekkert land í heiminum hýsir jafn marga flóttamenn. Þrátt fyrir að drög að samkomulagi hafi legið fyrir nokkru við tyrknesk yfirvöld þá er samningurinn ekki kominn í gagnið.

Að sögn Brady þarf að yfirstíga nokkrar hindranir og komast að málamiðlunum áður en hann verður að veruleika. Síðan efast stjórnarerindrekar beggja megin borðs um vilja hins og telja fullvíst að hinn aðilinn svíki samkomulagið.

AFP

Þrjú þúsund flóttamenn á dag

Á meðan samkomulagið er ekki virkt þá streyma flóttamennirnir yfir landamærin þrátt fyrir kulda og vosbúð. Á hverjum degi komi um þrjú þúsund flóttamenn til ríkja ESB og frá áramótum hafa yfir 30 þúsund flóttamenn komið frá Tyrklandi til Grikklands. Það sjái það allir og viti að þetta getur ekki gengið svona endalaust. Til að mynda komu fleiri flóttamenn til Evrópu í október en álfan ræður við á einu ári, segir Brady.

AFP

En hvað er til ráða og hvað ber framtíðin í skauti sér, spyr Brady og svarar sjálfur: „ég veit það ekki. Fólk á flótta er ekkert eitthvað nýtt af nálinni, til að mynda komu tugir þúsunda flóttamanna frá Afríku yfir til Spánar fyrir nokkrum árum og það var ekki fyrr en Spánn náði samkomulagi við stjórnvöld í Senegal að hægt var að draga úr fjöldanum og veita aðstoð heima fyrir.

Allt síðasta ár fjölgaði flóttamönnum í Evrópu jafnt og þétt og met voru slegin í nánast hverjum mánuði. Enda er þetta í fyrsta skipti sem flóttamannavandinn varð að máli hjá leiðtogaráði ESB því áður var þetta hluti af umræðu innanríkisráðherra ESB-ríkjanna, segir Brady.

AFP


 

Telur að Schengen samstarfið verði til áfram

Undanfarna mánuði hafa sífellt fleiri ríki tekið upp hert landamæraeftirlit þrátt fyrir aðild að Schengen landamærasamstarfinu og telja margir að Schengen samstarfið sé í hættu. Brady telur hins vegar að Schengen samstarfið muni hafa þetta af þrátt fyrir á það reyni um þessar mundir.

Hann telur nauðsynlegt að fram fari samræmt eftirlit á landamærum ríkjanna þar sem hælisleitendur eru flokkaðir eftir því hvort þeir eigi rétt á hæli eða ekki. Því stór hluti þeirra sem sækja um hæli ríkjum ESB séu efnahagslegir flóttamenn (migrants) sem ekki eigi sjálfkrafa rétt á hæli. Nefndi hann Kósóvóbúa þar sem dæmi en það er einn stærsti hópurinn sem sækir um hæli í Þýskalandi. 

AFP

Fjöldinn fordæmalaus

En allt eftirlit er tímafrekt og ráðamenn í Evrópu hafa sætt harðri gagnrýni fyrir hversu seint og illa gengur að bregðast við flóttamannastraumnum. Að sögn Brady er auðvitað margt sem betur mætti fara en því megi hins vegar ekki gleyma að fjöldinn sé fordæmalaus og að önnur ríki, svo sem Bandaríkin, hafi ekki brugðist jafn hratt við og Evrópa. Það sjáist á fjölda þeirra Sýrlendinga sem hafa fengið hæli í Bandaríkjunum í fyrra.

Að sögn Brady var það ekki fyrr en með birtingu myndar af Ayl­an Shenu (hann er yf­ir­leitt kend­ur við Kurdi í frétt­um en þar er vísað til þess að hann er Kúr­di), þriggja ára gam­als sýr­lensks drengs sem drukknaði í byrjun september ásamt fimm ára göml­um bróður sín­um, Galip, og móður, Reh­an, á flótt­an­um sem athyglin beindist í alvöru að vanda flóttafólks.

En samúðin með flóttafólkinu hafi minnkað mjög eftir hryðjuverkaárásirnar í París 13. nóvember og eins eftir ofbeldið í Köln á nýársnótt. Öfgamenn hafi nýtt sér þetta og ýtt undir þá skoðun að flóttafólk væri hryðjuverkamenn og nauðgarar upp til hópa. 

Búast má við mikilli fjölgun flóttafólks til Evrópu strax í …
Búast má við mikilli fjölgun flóttafólks til Evrópu strax í mars þegar heldur fer að hlýna í veðri. AFP

Endurskoða þarf Dylfinarreglugerðina og lög um hælisleitendur

Ljóst sé að grípa verði til aðgerða og að Dyflinnarreglugerðin og löggjöf ESB varðandi hælisleitendur þurfi á verulegri endurskoðun að halda. 

Forsætisráðherra Hollands, Mark Rutte, sagði á viðskiptaráðstefnunni í Davos fyrr í vikunni að Evrópusambandið hefði aðeins sex til átta vikur til stefnu til að bjarga Schengenkerfinu sem miðar að frjálsri för fólks innan Schengen-svæðisins. Strax í mars, þegar fer að hlýna á ný, fari flóttafólki fjölgandi yfir hafið á ný.

Wolfgang Schäuble,fjármálaráðherra Þýskalands, gerði flóttamannastrauminn einnig að umtalsefni á ráðstefnunni og segir að það verði að koma á einskonar Marshall áæltun í gagnið til að veita þeim ríkjum fjárhagsaðstoð sem eru með landamæri að Evrópu. Markmiðið yrði að draga úr fjölda flóttafólks til Evrópu með því að skapa betri efnahagslegar aðstæðru í Miðausturlöndum og ríkjum sunnan Sahara í Afríku.

AFP

Schäuble segir að þetta myndi kosta milljarða evra en aðspurður um hvort Þýskaland þyldi annað ár eins og það síðasta þegar yfir ein milljón sótti um hæli sagðist hann ekki einu sinni vilja hugsa þá hugsun til enda.

Evr­ópu­sam­bandið hef­ur í hyggju af fella úr gildi regl­ur um að hæl­is­leit­end­um beri að sækja um hæli í fyrsta aðild­ar­ríki Schengen-svæðis­ins sem þeir koma til. Þetta kom fram í Financial Times í vikunni en regl­urn­ar eru kjarni svo­nefndr­ar Dyflin­ar­reglu­gerðar en ís­lensk stjórn­völd hafa gjarn­an beitt þeim við meðferð hæl­is­um­sókna.

Gestir á fyrirlestri Hugo Brady, ráðgjafa Donald Tusk forseta leiðtogaráðs …
Gestir á fyrirlestri Hugo Brady, ráðgjafa Donald Tusk forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins Háskóli Íslands/Kristinn Ingvarsson

Til­laga um að fella regl­urn­ar úr gildi verður vænt­an­lega lögð fram í mars sam­kvæmt frétt­inni en mark­miðið með henni er að Evr­ópu­ríki í norður­hluta álf­unn­ar taki á sig aukna ábyrgð á þeim fjölda hæl­is­leit­enda sem komi til ríkja í Suður-Evr­ópu eins og Ítal­íu og Grikk­lands. Regl­urn­ar séu ósann­gjarn­ar og úr­elt­ar að mati fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins. Brady staðfesti að þetta væri til skoðunar en vildi ekki gefa upp nákvæmlega hvað verði gert. Að minnsta kosti væri ljóst að Grikkir gætu ekki, og í raun hafi Mannréttindadómstóll Evrópu staðfest að það er ekki boðlegt út frá mannúðarsjónarmiðum, hýst alla þá sem þangað koma. 

Hugo Brady, ráðgjafi Donald Tusk forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins
Hugo Brady, ráðgjafi Donald Tusk forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins Háskóli Íslands/Kristinn Ingvarsson

Lögin barn síns tíma

Lög sem gilda um hælisleitendur innan Evrópusambandsins eru einnig barn síns tíma og þarfnast endurskoðunar enda um grófa flokkun að ræða í dag í tvo flokka. Hvað er flóttamaður og hvað er farandfólk? Það er fólk sem flýr efnahagslegar aðstæður en ekki stríð. Er rétt að synja fólki um hæli sem kemur frá ríkjum þar sem það er að svelta til bana? Eða er rétt að synja fólki um hæli sem er ofsótt í heimalandinu fyrir kynhneigð sína? spurði Brady í umræðum í Háskóla Íslands í gær. 

Fyrirlesturinn var á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands
Fyrirlesturinn var á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands Háskóli Íslands/Kristinn Ingvarsson

Hann segir samstarf þjóðanna mikilvægt og telur ekki að Schengen samstarfið muni líða undir lok því kostir þess séu svo gríðarlegir. Viðbúið sé að það muni breytast eitthvað en verði áfram í gildi. 

Eitt af því sem Brady nefndi sérstaklega voru smyglarar sem hagnast gríðarlega á neyð flóttafólksins. Fólks sem greiðir um þrjú þúsund evrur fyrir að komast til Evrópu og lætur það ekki stöðva sig að ferðalagið sé með hriplekum bát sem rúmar vart allan þann fjölda sem á honum er því neyðin er slík.

Hann segir að smyrlarnir séu af mörgum þjóðernum og sagði alls ekki rétt að þeir væru allir Tyrkir. Til að mynda væri albanska mafían stórtæk á þessu sviði og færi mikinn í vélbátaviðskiptum þessi misserin. Eftir miklu er að sækjast því áætlað er að tekjurnar af smyglinu séu um fleiri milljarðar evra á ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert