Skoða stofnun fimm ára bekkjar í Kópavogi

Skólanefnd Kópavogs hafnaði í vikunni beiðni Kópavogsskóla um stofnun fimm ára bekkjar við skólann. Guðmundur Ó. Ásmundsson, skólastjóri Kópavogsskóla segir að þó sé ekki öll von úti enn enda hafi þess í stað verið komið á fót vinnuhópi um skil skólastiga í öllum grunnskólum bæjarfélagsins. Hann segir fimm ára bekki finnast í öllum öðrum bæjarfélögum höfuðborgarsvæðisins og að því hafi skólanum fundist eðlilegt að skoða þennan möguleika.

„Það er sagt í námskránni að það eigi að horfa til þess að mýkja skil skólastiga. Þá fórum við að horfa á það hvort það væri möguleiki á að taka krakkana fyrr inn og hugsunin var einfaldlega sú að fá að taka inn lítinn tilraunabekk og sjá hvernig við gætum unnið með hann,“ segir Guðmundur.

Segir hann hugmyndina hafa verið að vinna út frá námsskrá leik- og grunnskóla og að ráða leikskólakennara til að hafa umsjón með verkefninu. 

„Þessu er hafnað en samt eru settar fram tillögur um að skoða þetta nánar,“ segir Guðmundur. „Það má segja að það sé búið að opna á það að þetta verði skoðað mjög nákvæmlega í Kópavogi. Þá er þetta skoðað fyrir bæinn í heild.“

Guðmundur á sjálfur sæti í vinnuhópnum sem stofnaður var um málið. Hann kveðst ekki ósáttur við að ósk skólans hafi verið hafnað og kveðst frekar líta á það sem svo að það sé nú komið í annan farveg. 

„Það eru alltaf nemendur sem eru alveg tilbúnir að byrja ári fyrr í grunnskóla og hafa þessa getu en með þessu vorum við að horfa til þess að taka inn lítinn hóp. Það var ekkert útfært hvernig yrði valið í hann og annað svo það voru enn margar spurningar í þessu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert