Vatnsfell fær að heita Wattsfell

Horft yfir Öskjuvatn. Þorvaldstindur til vinstri, Víti til hægri og …
Horft yfir Öskjuvatn. Þorvaldstindur til vinstri, Víti til hægri og Wattsfell því sem næst fyrir miðju lengst í suðri.

Vatnsfell við Öskju í sunnanverðum Dyngjufjöllum skal héðan í frá heita Wattsfell, samkvæmt niðurstöðu Örnefnanefndar. Fjallið, sem er 1.308 metra hátt, hafði fyrr á árunum þetta nafn og var kennt við breska landkönnuðinn William Lord Watts.

Fyrstur yfir Vatnajökul

Watts ferðaðist þrisvar til Íslands, árin 1871, 1874 og 1875, í þeim megintilgangi að ganga yfir Vatnajökul. Síðasta árið náði hann að þvera jökulinn fyrstur manna svo sögur fari af, ásamt fimm íslenskum félögum sínum. Hann gerði síðan út sér leiðangur til að skoða ummerki eftir stóra eldgosið í Öskju þá um vorið. Eru til hrikalegar lýsingar á því þegar veggir öskjunnar hrynja niður í djúpin þar sem nú er Öskjuvatn. Afleiðingar umrædds eldgoss í Öskju urðu miklar. Aska lagðist yfir norðan- og austanvert landið svo að bæir lögðust í eyði. Það kom flutningum Íslendinga til Kanada af stað.

Á sinni tíð skrifaði Watts greinar og bækur um ferðir sínar sem urðu víða kunnar. Árið 1910 var Wattsfell nefnt til heiðurs honum og til að minnast þessa frækna leiðangurs. Var nafnið allvíða notað í bókum og á landakortum og stóð til ársins 1941. Þá var því var breytt af Örnefnanefnd, ásamt fleiri nöfnum sem þóttu ekki hæfa á Íslandi að mati nefndarinnar. Vatnsfell skyldi það heita. Mörgum sem til þekkja hefur hins vegar fundist örnefni þetta úr takti við veruleikann, enda stendur fjallið allfjarri sjálfu Öskjuvatni.

Að fá breytingu á nafni fjallsins í gegn – og staðfestingu þar að lútandi – hefur tekið langan tíma. Það var árið 2003 sem Víðir Gíslason á Akureyri byrjaði að vinna í málinu, en hann hefur í tímans rás safnað ýmsum heimildum um Íslandsleiðangra Watts og byggði erindi sín til Örnefnanefndar á þeim. Nefndin úrskurðaði 2004 að Vatnsfellsnafnið skyldi standa og vera á kortum með tilliti til hefðar. Wattsfellsnafnið mætti þó fljóta með til dæmis á landakortum og vera innan sviga. Nú hefur nefndin snúið blaðinu við. William Lord Watts er „kominn á kortið“ í orðsins fyllstu merkingu.

Til upprunalegs horfs

„Það er því niðurstaða Örnefnanefndar að örnefnið Wattsfell skuli endurreist og fært til upprunalegs horfs. Á útgefnum kortum þykir þannig rétt að standi Wattsfell. Þar sem því verður við komið t.d. á opinberum gagnagrunnum sem bjóða upp á slíkt, er þó rétt að Vatnsfell sé skráð sem aukanafn,“ segir í úrskurði.

Watts til Los Angeles

William Lord Watts var fæddur í London árið 1850. Hann nam m.a. jarðfræði og steindafræði við Kings College, sem sennilega hefur vakið spenning fyrir Íslandsferðum, ásamt miklum áhuga á fjallgöngum. Watts skrifaði tvær bækur um þær ferðir og hélt fyrirlestra hjá á ýmsum stöðum í Lundúnum.

Í formála að íslenskri útgáfu bókar Watts stendur að hann hafi látist árið 1877, aðeins 27 ára. Í ljós kom hins vegar að hann flutti til Bandaríkjanna það ár og bjó lengst af og starfaði í Los Angeles. Sinnti meðal annars jarðfræðirannsóknum og ráðgjöf í tengslum við olíuvinnslu og námagröft, ásamt því að skrifa bækur og ritgerðir um þau efni. Hann lést árið 1921, um borð í skipi á leið til Trinidad, hvar hann sinnti olíurannsóknum.

„Saga hans var um margt óþekkt,“ segir Víðir. „En þetta var afar ánægjulegt ferðalag með Watts. Náðst hefur að bæta áratugum við lífshlaup Watts. Margt viðvíkjandi þessum merka manni hefur komið fram í dagsljósið – sem vert er að halda til haga,“ segir Víðir Gíslason.

Orðstírinn og afrekin

„Mér hefur fundist miður í ljósi orðstírs og afreka þessa heiðursmanns og tengsla við Öskju, að nafn hans skyldi afbakað á þann hátt sem gert var,“ segir Víðir Gíslason sem hefur sína kenningu um hvers vegna nafni fjallsins var breytt á sínum tíma.

„Já, þegar Vatnsfellsnafnið var tekið upp árið 1941 var staða Íslands brothætt. Bretar höfðu hernumið landið og margir ansi viðkvæmir fyrir hvers konar erlendum áhrifum. Sennilega hefur það haft afgerandi áhrif á niðurstöðu þáverandi Örnefnanefndar. Einnig var stofnun lýðveldis í undirbúningi,“ segir Víðir Gíslason. „Sennilega hefur þótt ástæða til að halda í það sem íslenskt var og draga úr erlendum áhrifum. En nú hefur verið bætt úr þessu sem mér finnst mjög ánægjulegt.“

Þorvaldstindur og Knebelsvarða

Við Öskju og í Dyngjufjöllum eru örnefni – fleiri en Wattsfell – sem vísa til þekktra manna. Þar er til Þorvaldstindur, 1.510 metra hár, nefndur eftir Þorvaldi Thoroddsen náttúrufræðingi. Einnig Knebelsvarða. Þjóðverjarnir Walther von Knebel jarðfræðingur og Max Rudloff málari fórust í Öskjuvatni árið 1907. Jarðneskar leifar þeirra fundust aldrei en slysið jók mjög á umtal um Öskju og sveipaði staðinn dulúð, sem enn er til staðar.

Knebelsvarða var hlaðin af unnustu von Knebels, Inu von Grumkow. Varðan stendur í námunda við gíginn Víti, þangað sem flestir Öskjufarar koma.

William Lord Watts.
William Lord Watts.
Víðir Gíslason.
Víðir Gíslason. Skapti Hallgrímsson
Ferðamenn á göngu við Öskju í Dyngjufjöllum.
Ferðamenn á göngu við Öskju í Dyngjufjöllum. Sigurður Bogi Sævarsson
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert