Á að reka hótel fyrir skattfé?

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Styrmir Kári

Á bak við samning Sjúkratrygginga og sjúkrahótelsins í Ármúla liggur engin vitræn þjónustuskilgreining og hefur vakið athygli fyrir að vera í kringum umtalsverð framlög úr almannasjóðum fyrir alltof lítið. Þetta segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í pistli á heimasíðu sinni í dag. Fagnar hann þar að samningurinn muni renna út og að hótelið hafi sagt honum upp.

Rifjar Árni Páll upp að fyrir samninginn hafi Landspítalinn sjálfur rekið sjúkrahótelsþjónustu fyrir lasburða fólk sem þó þurfti ekki að vera á sjúkrahúsi. Auk þess hafi hjúkrun verið í boði þar. Með samningnum hafi fjárveitingar til Landspítalans verið lækkaðar á móti.

Í samningi við sjúkrahótelið í Ármúla gerðu Sjúkratryggingar Íslands engar kröfur um neina hjúkrunarþjónustu, heldur er einungis varið almannafé til að kaupa hótelherbergi og fæði. Sú þjónusta nýtist Landspítalanum ekki neitt, því ef hægt væri að útskrifa fólk af spítalanum heim til sín án hjúkrunarþjónustu væri það auðvitað þegar gert, ríkissjóði að kostnaðarlausu,“ segir Árni Páll í pistlinum.

Þá gagnrýndi hann að hótelið, en ekki Landspítalinn hafi getað ráðið hverjir fengju inn þar samkvæmt samningnum. „Ef Landspítalinn er að springa undan álagi, eins og þessar vikurnar, getur hóteleigandinn samt sagt nei. Hann tekur sjúklinga bara inn á hótelið til uppfyllingar, þegar ekki er hægt að leigja til túrista,“ segir Árni Páll og bætir við að þekkt sé þegar Smáþjóðaleikarnir voru haldnir og veiku fólki var vísað á dyr.

Díllinn er því sniðinn að þörfum eigenda sjúkrahótelsins en ekki þjóðarinnar. Hvaða hóteleigandi vill ekki vera í aðstöðu til að láta ríkið borga hjá sér öll þau herbergi sem annars standa tóm?“ spyr Árni Páll.

Sjúkrahótelið er staðsett í Ármúla 9 í Reykjavík.
Sjúkrahótelið er staðsett í Ármúla 9 í Reykjavík.

Segir Árni Páll jákvætt fyrir skattborgara að þessi „furðulegi og óþarfi samningur“ skuli á enda runninn og að fráleitt sé fyrir ráðherra að reyna að endurvekja hann. Segir Árni samninginn gott dæmi um slæmar afleiðingar vanhugsaðrar samningsgerðar við einkaaðila þar sem viðsemjandi fær sniðinn samning að eigin hagsmunum og engin þarfagreining liggi fyrir og „fjárfestar geta læst klóm í opinbert fé sem ætti að renna til umönnunar sjúks fólks.

Vill Árni Páll að farið sé að fordæmi Svíþjóðar um að ekki verði samið við fjárfesta sem reki fyrirtæki í hagnaðarskyni um framkvæmd spítalaþjónustu við veikt fólk vegna vondrar reynslu. „Það takmarkaða fé sem rennur til heilbrigðismála á ekki að fara í rekstrarstyrki til sjúkrahótelsins í Ármúla, ekki frekar en til Hótel Nordica,“ segir Árni Páll að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert