Fótbrotnaði eftir dans á hóteli

Talsverður erill var hjá lögreglu í nótt.
Talsverður erill var hjá lögreglu í nótt. mbl.is/Júlíus

Talsverður erill var hjá lögreglu á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt. Nokkur meint fíkniefnabrot komu upp, höfð voru afskipti af þremur dyravörðum án tilskilinna réttinda og þá slasaðist kona eftir að hafa stigið dans. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

Á tólfta tímanum í nótt var lögreglu tilkynnt um að kona hefði slasast á hóteli í Vesturbænum. Þegar lögregla kom á staðinn kom í ljós að hún hafði misstigið sig illa og reyndist hún vera fótbrotin. Flutti lögregla hana á slysadeild til aðhlynningar.

Þá hafði lögreglan afskipti af þremur dyravörðum án tilskilinna réttinda á skemmtistöðum í miðborginni. Voru gerðar skýrslur um málin, en um er að ræða brot á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

Rétt eftir fjögur í nótt var lögregla kölluð til vegna líkamsárásar á skemmtistað í miðbænum. Einstaklingur hafði verið sleginn í andlit með glasi. Gerandinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu, en þolandinn var fluttur á slysadeild.

Þrír ökumenn voru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna. Á  öllum fundust áætluð fíkniefni og á einum eggvopn. Voru allir sviptir ökuréttindum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert