Fyrirtækið að étast upp innan frá

Álverið í Straumsvík.
Álverið í Straumsvík. mbl.is/Ómar Óskarsson

Stjórnendur og eigendur álversins í Straumsvík hafa skapað þá stöðu að fyrirtækið er hægt og rólega að étast upp innan frá. Mikil starfsmannavelta hefur verið að undanförnu og virðist samninganefnd ISAL ekki vita hvaða heimildir hún hefur í kjaraviðræðum við starfsfólk fyrirtækisins.

Þetta segir Gylfi Ingvarsson, talsmaður starfsmanna, í samtali við mbl.is. Síðasti fundur í kjaradeilunni var á föstudag og stóð hann yfir í fimmtán mínútur. Ekki hefur verið boðað til nýs fundar.

„Í framhaldi af þessari yfirlýsingu forstjóra Rio Tinto þá vita stjórnendur, eða samninganefnd ISAL, ekki hvað þessi yfirlýsing þýðir og hvaða heimildir þeir hafa í framhaldinu,“ segir Gylfi og því hafi verið til lítils að funda lengur. Hann segir yfirlýsinguna alls ekki í takt við íslenskan raunveruleika í kjaramálum.

Aðspurður hvort verið sé að huga að vinnustöðvunum til að knýja fram kjarabætur segir Gylfi að verið sé að fara yfir málin og skoða hvað sé skynsamlegt og áhrifaríkast að gera í stöðunni. Verður það skoðað nánar í vikunni.

Hátt í tíu iðnaðarmenn sögðu upp störfum hjá fyrirtækinu fyrir áramót og segir Gylfi að starfsmannaveltan hjá fyrirtækinu hafi aldrei verið eins og þessar vikurnar.

Tuttugu nýir starfsmenn sitji nýliðanámskeið sem allajafna er ekki haldið fyrr en vorin þegar sumarstarfsólk kemur til starfa. „Stjórnendur eru búnir að skapa þá stöðu að fyrirtækið er að étast upp innan frá. Þetta er á ábyrgð stjórnenda og eiganda fyrirtækisins,“ segir Gylfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert