Segir gagnrýni byggja á hvatvísi

Kári Stefánsson.
Kári Stefánsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Kári Stefánsson, forsvarsmaður undirskriftasöfnunarinnar „Endurreisum heilbrigðiskerfið“ segir gagnrýni sem söfnunin hafi hlotið frá tveimur þingmönnum Sjálfstæðisflokksins byggja á hvatvísi.

Þetta kemur fram í pistli hans á Facebook.

Segir hann tvo þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa gagnrýnt hann fyrir að krefjast þess að Ísland verji 11% af vergri landsframleiðslu í rekstur heilbrigðiskerfisins án þess að benda á hvar eigi að skera niður á móti. Við því segir Kári:

„Svar við þessu er einfalt. Heilbrigðiskerfið er það tæki sem við notum til þess að hlúa að meiddum og sjúkum í okkar samfélagi. Við hljótum að gera þá kröfu til heilbrigðiskerfisins að það leyfi okkar að gera þetta eins vel ogtíðkast í löndunum í kringum okkur.“

Sjá frétt mbl.is: Reiknar með ásökunum um lýðskrum

Kári sakar þingmennina um að vera hræddari við skattahækkanir en þjáningar og dauða samborgara sinna. „Þeir eru hins vegar báðir góðir og hjartahlýir menn og þess vegna ætla ég að skrifa þessa vitleysu þeirra á hvatvísi og hættulega tryggð við formann flokks þeirra sem þarf einmitt á því að halda að einhver segi honum til vamms í stað þess að etja honum á það exelskjala forað sem hann virðist svo elskur að. Við skulum vona að með þessu hafi þingmennirnir tveir ekki valdið flokki sínum of miklu tjóni vegna þess að það vill nefnilega svo til að velferðarkerfið sem okkur er svo annt um varð til á vakt þessa flokks sem hefur svo oft verið boðberi þeirrar félagshyggju sem honum finnst hann eigi að vera á móti,“ skrifar Kári.

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins svarar Kára á Facebook:

„(...) ég er ekki sammála nálguninni um að 11% sé einhver lykiltala. Ef landsframleiðsla verður ekki aukin munum við að óbreyttu þurfa 14% eftir nokkur ár m.a. vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar. Ég vil því umræðu samhliða þessari um stækkun kökunnar og þá hvernig við getum haldið útgjöldum til heilbrigðismála í 8% en samt fengið þá milljarða sem á vantar. Slík umræða virðist vera eitthvert tabú, m.a. hjá mörgum Alþingismönnum.“

Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa gagnrýnt mig fyrir að standa fyrir undirskriftarsöfnun til stuðinings þeirri kr...

Posted by Kari Stefansson on Sunday, January 24, 2016
Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert