Alþjóðlegur andi í Kolaportinu

Lara segir afar gaman að tala við eldri borgara, þá …
Lara segir afar gaman að tala við eldri borgara, þá skorti hvorki vilja né tíma. Lara starfar á Grund meðfram námi. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér finnst ákveðinn alþjóðlegur andi ríkja í Kolaportinu. Þeim sem er ekki Íslendingur og kemur í fyrsta skipti þangað líður ekki beint eins og hann sé í öðru landi því heimurinn endurspeglast þar með einhverjum hætti,“ segir hin króatískættaða Lara Roje.

„Ég fíla Kolaportið“ nefnist BA- ritgerð hennar í íslensku sem annað mál, sem hún skilaði nýverið við Háskóla Íslands. Í ritgerðinni var skoðað hvernig íslensk menning varðveitist og breytist í Kolaportinu sem endurspeglast í prjónlesi, matarmenningu og bókmenntamenningu. Í ritgerðinni var auk þess saga Kolaportsins rakin.

„Ég hef sjálf gaman af því að fara í Kolaportið og var að pæla í sögu þess og þá komst ég að því að það hafði ekki mikið verið skrifað um það. Heimildirnar sem ég fann voru helst um reynsluna af því að heimsækja það á tilteknum tíma,“ segir Lara.

Hún bendir á að Kolaportið hafi breyst með tímanum en það var opnað 8. apríl árið 1989. Í upphafi hafi það verið „íslenskara“ að því leyti að meiri íslenskur varningur var á boðstólum en með vaxandi fjölda ólíkra þjóðerna sem hafa sest hér að hefur það orðið alþjóðlegra sem má glögglega heyra á ólíkum tungumálum sem heyrast þar. Kolaportinu má líkja við spegil samfélagsins og breytingar samfélagsins sjást berlega þar hverju sinni.

„Flestir hafa farið í Kolaportið en það finnst varla sá einstaklingur sem hefur ekki farið a.m.k. einu sinni í Kolaportið yfir ævina. Öllum finnst áhugavert að skoða Kolaportið og enginn er beint á móti því, að minnsta kosti ekki af þeim sem ég talaði við, en það er mjög vinsælt meðal Reykvíkinga,“ segir Lara. Hún bendir á að fólk sæki það heim í ólíkum tilgangi. Sumir fara til að gramsa í dóti og fötum, eru í fjársjóðsleit, aðrir fara til að sýna sig og sjá aðra, og allt þar á milli.

Í ritgerð sinni skoðaði Lara hvernig íslensk menning varðveitist og …
Í ritgerð sinni skoðaði Lara hvernig íslensk menning varðveitist og breytist í Kolaportinu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lara kom hingað til lands árið 2010 í tengslum við sjálfboðaliðaverkefni á vegum Evrópusambandsins og starfaði þá á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund. Að því loknu bauðst henni að vinna þar áfram sem hún þáði. „Þá var ég orðin ástfangin af manninum mínum og landinu,“ segir hún og hlær og bætir við „og nú er ég orðin Íslendingur“. Lara er með íslenskan ríkisborgararétt. Þess má geta að sá heppni heitir Magnús Páll Haraldsson.

Frá árinu 2010 og meðfram námi sínu í íslensku hefur hún unnið á Grund og líkar það dável.

„Það er ofboðslega gaman að tala við eldri borgara, þeir vilja mikið tala og hafa nógan tíma. Nóg af sögum. Maður heyrir mjög rétta íslensku hér, ekki eins og unglingar tala hana í dag, heldur er hún hefðbundin og rétt. Gamalt fólk talar hægt og rólega og notar orð sem eru ekki mikið notuð. Maður getur lært mikið ef maður hefur áhuga á tungumálinu,“ segir Lara sem var í matarhléi þegar Morgunblaðið hafði samband. Það var heppileg tímasetning því þorramatur var á boðstólum sem hún hugðist ekki borða. „Ég hef smakkað hann einu sinni og það er alveg nóg,“ segir hún og hlær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert