Bóluefnið uppurið á landinu

Bóluefnið Havrix hefur ekki verið til síðan í október.
Bóluefnið Havrix hefur ekki verið til síðan í október. AFP

Bóluefnið Havrix gegn lifrarbólgu A er uppurið á landinu og hefur ekki verið til síðan í október á síðasta ári. Þetta staðfestir Henrik Kastoft, talsmaður lyfjaframleiðandans GSK í Evrópu, í svari við fyrirspurn mbl.is.

Embætti landlæknis hvetur jafnan alla þá til að bólusetja sig sem hyggja á ferðalög til landa þar sem sjúkdómurinn er landlægur. Auk þess er mælst til þess að samkynhneigðir karlar og fíkniefnaneytendur láti einnig bólusetja sig.

Skortinum valda örðugleikar sem komu upp við framleiðslu efnisins árið 2014 og eru að vissu leyti enn til staðar að sögn Henriks. Býst hann við því að framleiðslan nái aftur eðlilegum afköstum á þessu ári, en bóluefnið verður ekki til hér á landi fyrr en í fyrsta lagi í maímánuði.

Dýrari vörn ennþá til staðar

Víðast hvar annars staðar getur almenningur nýtt sér bóluefni samkeppnisaðila GSK, en því er ekki til að dreifa hér á landi. Hins vegar er ennþá til staðar bóluefnið Twinrix sem felur í sér vörn gegn bæði lifrarbólgu A og B. Það er aftur á móti dýrara auk þess sem vörn gegn lifrarbólgu B er ekki jafn nauðsynleg ferðamönnum.

„Markaðurinn er lítill á Íslandi og því erum við mögulega viðkvæmari fyrir svona uppákomum,“ segir Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar. Stofnunin hefur fylgst náið með ástandinu og þróun þess.

„Bóluefni eru framleidd með löngum fyrirvara og nákvæmlega fyrir þá markaði sem þeim er ætlað,“ segir Rúna og bætir við að aðrir framleiðendur hafi af einhverjum ástæðum ákveðið að koma ekki með sín bóluefni á íslenskan markað.

„Við teljum að svör fyrirtækisins séu fullnægjandi og munum ekki bregðast við frekar að svo stöddu. En ef ekki væri fyrir Twinrix myndum við þurfa að grípa til ráðstafana.“

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri lyfjastofnunar.
Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri lyfjastofnunar. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert